138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur komið í ljós að frá áramótum er búið að ráða í ráðuneytin alls 42 starfsmenn án auglýsingar. Í ljósi þess langar mig að beina fyrirspurn til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar. Í gær var grein í Fréttablaðinu eftir Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðing sem mig langar að vitna í, með leyfi forseta:

„Önnur birtingarmynd kunningjaþjóðfélagsins er það kunningjasamfélag sem verður til innan opinberrar stjórnsýslu við það að ættar-, vina og pólitísk hagsmuna- og kunningjatengsl ráða meiru við ráðningar í embætti og störf hjá hinu opinbera en hæfni, þekking og reynsla. Þetta kallast í daglegu tali pólitískur klíkuskapur, eða pólitískar vinaráðningar […]. Pólitískar vinaráðningar þekkjast víða, en eru hvað útbreiddastar í vanþróuðum ríkjum.“

Pólitískar vinaráðningar veikja stjórnsýsluna og því langar mig að beina fyrirspurn til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar vegna þess, frú forseti, að ég deili áhyggjum með Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðingi af því hvaða áhrif þetta hefur á stjórnsýsluna. Mig langar líka til að velta því upp við hv. þingmann hvort honum finnist ekki vera mismunun við það atvinnuástand sem núna er, það er fullt af mjög hæfu fólki sem er atvinnulaust, hvort ekki sé gengið á rétt þess að hafa ekki sömu tækifæri til að sækja um störf og aðrir.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur sett heimsmet í að svara spurningum hjá Evrópusambandinu og hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) er mikill keppnismaður sem annaðhvort stefnir að því að setja heimsmet í skattahækkunum eða pólitískum ráðningum.