138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég tek til máls til að ræða sama mál og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, þessar ráðningar án auglýsinga. Nú skal ég bara viðurkenna að ég held að þeir flokkar sem hafa verið í ríkisstjórn áður hafi ekki verið beint til fyrirmyndar, bara viðurkenni það hér með, en þeir sem hins vegar tóku við voru þeir sem kannski gagnrýndu það harðast og virðast svo sannarlega ekki ætla að fara eftir því sem þeir sjálfir hafa sagt. Bent hefur verið á að í forsætisráðuneytinu eru tveir tímabundnir starfsmenn sem hafa verið ráðnir án þess að störf þeirra væru auglýst. Þetta eru fyrrum aðstoðarmenn, annar er Einar Karl Haraldsson sem er upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, var aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar og var meira að segja búinn að fá ráðningu í stjórnkerfinu, hjá Landspítalanum, án auglýsingar þar líka (Utanrrh.: Það vill enginn vera hjá mér.) en var síðan kippt yfir í forsætisráðuneytið. Kristrún Heimisdóttir er líka fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í utanríkisráðuneytinu, er núna einn fimm starfsmanna félagsmálaráðuneytisins sem voru líka ráðnir á árinu án auglýsingar. Síðan má benda á að í fjármálaráðuneytinu starfar nú Elías Jón Guðjónsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, sem er fyrrverandi formaður ungliðahreyfingar Vinstri grænna. Svo geta menn talið upp áfram í samgönguráðuneytinu og áfram.

Það sem vakti hins vegar athygli mína í svörum sem ég fékk frá forsætisráðherra var að einum ráðherra, sem er að vísu ekki lengur ráðherra, tókst algerlega að komast hjá því að ráða nokkurn starfsmann tímabundið án auglýsingar þegar hann var í ráðuneytinu. Ég held að það væri mjög áhugavert að heyra frá þessum fyrrverandi ráðherra hvernig í ósköpunum þetta var eiginlega hægt. Þegar ég ræddi um þetta við annan ráðherra sem situr núna í ríkisstjórn kom bara fram í svari hjá viðkomandi að hún væri bara enginn Ögmundur, hún sæi ekki fram á að (Forseti hringir.) henni væri stætt á að komast hjá því að ráða tímabundið án auglýsingar. Það væri ágætt að fá svona kennslustund frá Ögmundi og ég vona sannarlega að ráðherrar sem eru við umræðuna og kannski tilvonandi ráðherrar í þessum þingsal hlusti nú vel á það sem Ögmundur segir. (Gripið fram í.)