138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur á síðustu mánuðum í raun haft forustu í þeirri lýðræðisumræðu sem átt hefur sér stað. Við lögðum upp með það í vor þegar hér urðu umskipti í íslenskum stjórnmálum að boðað yrði til stjórnlagaþings, lögðum mikla áherslu á það. Stjórnlagaþing hefði tekið á flestum þeim málum sem hv. þingmaður spyr um. Því miður fór það mál í einhvern undarlegan farveg og virðist ætla að verða minna úr því en efni standa til. Ég kenni um, hvað á ég að segja, vandræðagangi með það að koma að stefnu hjá ríkisstjórninni um hvaða leið hún vilji fara í þessu. Það er búið að útþynna verulega mikið þá hugmynd sem við lögðum fram.

Hvað varðar það að gera landið að einu kjördæmi hefur Framsóknarflokkurinn ályktað að það eigi að stefna að því að jafna vægi atkvæða sem mest. Það er í flokksþingsályktunum okkar. Það eru hins vegar eðlilega skiptar skoðanir innan þess flokks eins og margra annarra um það hvernig sé best að gera það og hvaða leiðir eigi að fara. Við höfum stutt við þá hugmynd að fara út í persónukjör, við höfum hins vegar ákveðnar efasemdir um það núna. Við teljum að miðað við þá tímasetningu sem sett er fram, að þetta mál skuli koma fram með þessum fyrirvara sem er enginn að okkar viti varðandi sveitarstjórnarkosningar, fari í rauninni betur á því að persónukjör verði reynt við alþingiskosningar en ekki næsta vor í sveitarstjórnarkosningunum.

Ég verð að segja það hér að það að breyta landinu í eitt kjördæmi er nokkuð sem vissulega þarf að skoða, en það er líka ýmislegt sem má velta upp þegar við tölum um vægi og jafnvægi meðal þjóðarinnar. Öll stjórnsýslan er á höfuðborgarsvæðinu. Er alveg sjálfgefið að svo sé og er sjálfgefið að í Reykjavík séu þingmenn? (Forseti hringir.)