138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

ráðningar án auglýsinga -- breytingar á kosningalögum o.fl.

[10:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í mestu vinsemd beina orðum mínum til stjórnarliða. Þið verðið að fyrirgefa þó að mér finnist svolítið kómískt að hlusta á hv. þm. Róbert Marshall tala um grátkór því að eftir að hafa heyrt ræður stjórnarliða hérna í gær er grátkór það orð sem kemur kannski fyrst upp í hugann. (Gripið fram í.) Virðulegur hæstv. utanríkisráðherra fer núna örlítið á taugum við að heyra þetta en það er allt í lagi, hann hefur verið svolítið í því undanfarna daga.

Ég vek athygli stjórnarliða á því að hér hafa þeir farið mikinn og hreinlega krafist þess að stjórnarandstaðan tali ekki um skattahækkanir. Nú getur það vel verið að þeim finnist það ekkert stórmál (Gripið fram í.) að hækka skatta um hundruð þúsunda á ári á launafólk í landinu, og að þeim finnist ekkert stórmál að hækka hér jaðarskatta, koma þeim aftur á, sem við lögðum mikið á okkur til að losa okkur við. Það getur vel verið að þeim finnist ekki stórmál að mismuna hjónum og það getur vel verið að þeim finnist það ekki einu sinni stórmál að hækka skatta um milljarða umfram það sem gert er ráð fyrir í áætlun AGS, jafnvel milljarðatugi. Og þeim finnist heldur ekki stórmál að hækka um milljarða eða milljarðatugi umfram það sem ákveðið var í stöðugleikasáttmálanum. Það getur verið að þetta sé hinn tæri draumur vinstri manna að komast núna loksins í að hækka almennilega skatta en stóra einstaka málið er þó, sem ég bið stjórnarliða að hugsa um, að hér í þinginu er málfrelsi.

Ég hvet stjórnarliða til að hugsa nokkur ár aftur í tímann þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, hvernig þeir létu þegar hin ýmsu mál komu upp, áður en þeir fara hér fram og krefjast þess að (Forseti hringir.) ekki verði tekin lýðræðisleg umræða um þessi mikilvægu mál eða önnur sambærileg.