138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

ráðningar án auglýsinga -- breytingar á kosningalögum o.fl.

[11:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er tilefni til að ræða mörg þeirra mála sem hér hefur verið tæpt á undir þessari knöppu umræðu undir liðnum Störf þingsins. Ég vil fyrst aðeins koma inn á það sem hér hefur verið nefnt um pólitískar ráðningar. Mér finnst eðlilegt að spurt sé út í það hvernig staðið er að ráðningum hjá hinu opinbera og hjá þeim sem eru á fjárframlögum úr opinberum sjóðum. Ég vil hins vegar halda þeirri skoðun fram að mikilvægast alls í þessu efni er að það sé gagnsæi, það sé ljóst hvaða störf eru pólitísks eðlis í stjórnsýslunni og hvaða störf eru faglegs eðlis. Mér finnst eðlilegt að í þau störf sem eru pólitísks eðlis og eiga að vera það í stjórnkerfinu og í Stjórnarráðinu sé ráðið á pólitískum forsendum og þau séu mönnuð þannig að þeir sem í þau fara komi með ráðherrum. Það getur til að mynda átt við um ráðuneytisstjóra, ég er þeirrar skoðunar. Það hefur því miður allt of oft tíðkast hér að menn séu ráðnir pólitískri ráðningu undir yfirskini faglegrar ráðningar og að menn sitji þar sem fastast lengi. (Gripið fram í.) Því þarf að breyta. (Gripið fram í.) Þar er Sjálfstæðisflokkurinn ekki saklaus. (Gripið fram í: Auglýsingaskyldan.) — Auglýsingaskylda á öllum störfum sem á að ráða í á faglegum forsendum. (Gripið fram í.) Já, en ég tel ekki sérstaka ástæðu til að auglýsa það sem ráðið er á pólitískum forsendum. (Gripið fram í.) Það þarf að vera gagnsætt og skilgreint, það er það sem ég er að segja.

Talað hefur verið um að hér sé ekki vilji til að ræða skattamálin á Alþingi. Það er rangt. Það er vilji til þess og ég kvíði ekki umræðunni um skattamálin við Sjálfstæðisflokkinn nema síður sé. Hún verður hins vegar að vera á upplýstum nótum. Það einkennir umræðu Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) að hann vill bara að umræðan verði slagorðakennd og á grundvelli upphrópana. (Gripið fram í.) Það munu koma þingmál (Gripið fram í.) um skattamálin og þá verður tilefni (GÞÞ: Hvenær? Hvenær?) til að ræða þau í þaula, líka skattastefnu Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár sem (Gripið fram í.) er ekki til að hrópa húrra fyrir. [Frammíköll í þingsal.]