138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og menntamálaráðherra þau svör sem hér hafa komið og málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu. Fjarnám og dreifnám snýst um fjölbreytni í kennsluháttum. Það snýst um aðferðir skóla við að nálgast nemendur sína, það snýst um samkeppni um nemendur og því fjölbreyttari kennsluhættir, þeim mun meira aðgengi hafa nemendur að skólunum. Fjarnám og dreifnám á ekki að skipta meginmáli við staðsetningu, en að sjálfsögðu veita þessir kennsluhættir fólki sem býr fjarri skólum eða staðsetningu skólanna miklu meiri möguleika til náms en allt annað. Og þetta nýnæmi í kennsluháttum er náttúrlega mesta framfaraskref í breytingu kennsluhátta sem orðið hefur á framhalds- og háskólanámi. Það hefur aukið val þeirra sem vilja mennta sig, það hefur gefið þeim sem ekki búa nálægt skólunum tækifæri til að mennta sig. Það hefur gefið þeim sem ekki hafa efni á því að fara í staðbundið nám en vilja mennta sig, tækifæri til að skipuleggja tíma sinn og læra í gegnum netið og vera í samskiptum við aðra nemendur í gegnum netið.

Dreif- og fjarnám snýst um fjölbreytni kennsluhátta, um val nemenda til þess að mennta sig. Og í öllum guðs bænum, ekki gera tilraun til að miðstýra fjar- og dreifnámi. Leyfum skólunum að þróa sína kennsluhætti í þá veru sem þeir telja besta (Forseti hringir.) hverju sinni, nemendum um allt land til hagsbóta.