138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sýnt hefur verið fram á að aðgengi að námi hefur mikið um menntunarstig þjóða að segja. Með tilkomu fjar- og dreifnáms hefur aðgengi að menntun hér á landi batnað og skólar átt þess kost að styrkja starfsemi sína hvort sem þeir eru litlir eða stórir. Markaðurinn er opinn og áherslur hvers skóla fyrir sig boðnar fram. Þannig hefur upplýsinga- og samskiptatækni verið nýtt og gert skólum kleift að koma til móts við fólk sem ekki hefur haft greiðan aðgang að staðnámi eða öðrum ástæðum kosið þetta kennsluform.

Frá sjónarhóli skólanna gefur kennsluformið þá möguleika að hagræða og auka um leið námsframboð til nemenda sem stunda staðnám. Það helgast einkum af því að mögulegt er, t.d. fyrir fámenna framhaldsskóla, að vera í samstarfi við stærri skóla sem geta boðið upp á ýmsa efri áfanga sem minni skólarnir eiga erfitt með að bjóða. Þannig er hægt að fylla upp í fámenna áfanga með fjarnemendum eða þá að nemendur minni skólanna geta stundað fjar- eða dreifnám hjá öðrum skólum, báðir njóta góðs af, nemendur og skólastofnunin.

Úr mati á fjar- og dreifnámi hér á landi þarf að vinna þannig að í framtíðinni byggjum við á því starfi sem skilað hefur bestum og mestum árangri. Reynslan sýnir að brottfall er meira þegar nám er stundað með þessu sniði þar sem öryggisnet um nemendur er yfirleitt ekki eins þéttriðið og í staðnámi. Svo virðist einnig vera að dreifnám henti fleirum en fjarnám sem alfarið er stundað án staðbundinna lotna. Dreifnámið gefur tækifæri til að styðja betur við nemendur þar sem þeir hitta kennara sína reglulega og það gerir samskiptin markvissari og betri.

Mikil tækifæri eru í fjar- og dreifnámi fyrir fólk í hinum dreifðu byggðum landsins sem nýtir sér það og eru það hagsmunir þess að námið sé vandað og boðið fram með þarfir notenda í huga. Dæmi eru um að hópar í ákveðnum starfsgreinum hafi nýtt sér þessa tækni til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði og til að ná sér í starfsréttindi. Nú þegar kreppir að og fjárframlög til fjar- og dreifnáms eru skorin niður er mjög mikilvægt að þessir hópar gangi fyrir þegar (Forseti hringir.) valið er inn í skólana, þ.e. þeir sem ekki hafa kost á að stunda nám með öðrum hætti eða þeir sem að öðrum kosti hefðu ekki tækifæri til að ná sér í starfsréttindi.