138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

staða dreif- og fjarnáms.

[11:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu og góðu umræðu um dreif- og fjarnám og tek undir með mörgum hv. þingmönnum sem segja að það hafi verið mikið framfaraspor þegar tókst að þróa þetta áfram vegna þeirrar tækniþróunar sem orðið hefur. Mér finnst þetta fyrst og fremst snúast um að skapa jöfn tækifæri fyrir nemendur í hinum dreifðu byggðum hvað varðar aðgengi að námi. Þar af leiðandi jafnar þetta búsetuskilyrði í landinu þar sem fólk sem býr úti á landi hefur þá kost á að fara í slíkt nám. Það er gríðarlega mikill kostnaður sem fylgir því að vera hér á höfuðborgarsvæðinu eða þar sem stóru framhaldsskólarnir eru þannig að það kostar oft jafnvel tugi þúsunda fyrir nemendur að fara til síns heima ef þeir búa langt í burtu.

Það hafa jafnvel ekki allir efni á því að fara í framhaldsnám öðruvísi en að fara í fjarnám og dreifnám. Það er mjög mikilvægt að við reynum að tryggja öllum jafnan rétt til náms.

Síðan í framhaldi af þessu vil ég sérstaklega nefna mjög vel heppnað verkefni sem er á framhaldsdeildinni á Patreksfirði. Þar eru núna 32 nemendur sem eru á milli 60 og 70% af þeim nemendum sem eru í þessu árgöngum þar og hefur þetta orðið mjög mikil bylting fyrir samfélagið þar, ég tala nú ekki um í ljósi þeirra samgönguaðstæðna sem þeir ágætu íbúar á suðurhluta Vestfjarða búa við. Þetta er líka gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið í heild sinni.

Svo langar mig líka að nefna það hér hvernig samfélagið bregst við á þeim stöðum þar sem þetta er gert. Núna til að mynda eru tvær konur sem starfa við framhaldsdeildina á Patreksfirði sem leggja miklu meira á sig og skila meira vinnuframlagi (Forseti hringir.) en þær fá greitt fyrir, eingöngu til þess að hlúa að verkefninu og halda því heima.