138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[11:55]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær fyrirspurnir sem hann beinir til mín. Það má ekki skilja orð mín svo hér áðan að ég sé á móti því að sérstök Lýðræðisstofa verði sett á fót sem falið verði það hlutverk að undirbúa og framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég bendi þó á aðrar leiðir í því sambandi. Það verður vissulega verkefni allsherjarnefndar, sem fær þetta mál til skoðunar, að skoða hvort rétt sé að hafa þann háttinn á að setja sérstaka Lýðræðisstofu sem annast muni framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, fari hún fram. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi ESB. Það má vel vera að það hafi verið í frumvarpinu, það verður þá bara að skoðast sérstaklega.

Ég hefði gjarnan viljað að við hefðum getað gengið þannig frá málum fyrr á þessu ári að það væri inni í stjórnarskránni að hægt væri að efna til kosninga, það mundi auðvelda okkur leikinn í þessu efni ef til þess kemur að við náum niðurstöðu að því er varðar ESB-aðild og málið gangi þá til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá væri auðvitað betra að hafa þetta bundið í stjórnarskránni, en hitt gengur auðvitað. Ég held að engum detti annað í hug en að þegar það mál fer fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu felist í því pólitísk skuldbinding sem farið verður eftir.

Það er fyrst og fremst í höndum Alþingis að skoða þetta. Ég lýsi því yfir hér að ég er alveg með opinn huga fyrir því að skoða þá leið sem hv. þingmaður nefndi, enda vísar hann til þess að þetta sé í þeirri tillögu sem Alþingi samþykkti að því er varðar ESB-umsóknina.