138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg staðfest það og tekið undir með hv. þingmanni að það frumvarp sem hér var til umræðu fyrr á árinu um þjóðaratkvæðagreiðslur var ekki það sem var helsta ágreiningsefnið af þeim nokkrum málum sem við vildum koma inn í stjórnarskrána. Auðlindaákvæðið var það ákvæði sem mest var deilt um og er full ástæða til þess að setja það fram í tíma áður en boðað verður til næstu kosninga og skoða það ákvæði sem er orðið mjög brýnt að festa í stjórnarskránni.

Vegna spurningar hv. þingmanns fór ég yfir það áðan, sem mér finnst nú alveg liggja í augum uppi, að þau mál sem ekki séu tæk í þjóðaratkvæðagreiðslu séu skattalög og fjárlagafrumvarp. En það geta verið mál af margvíslegum toga sem fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er sannfærð um að það eru mismunandi skoðanir á því hér innan þingsins hvaða mál það eru sem eiga heima í þjóðaratkvæðagreiðslu og sjálfsagt verður farið yfir það í allsherjarnefnd. Ég tel þó að miðað við það tiltölulega víða svigrúm sem ég tel að eigi að vera í þessu efni, sé ekki ráðgert að setja það inni í einhvern ramma nema þá að því er varðar þau mál sem ég nefndi hér.

Auðvitað er ljóst og allir eru sammála um það að mál eins og ESB fer í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er auðvitað galli á því að það sé ráðgefandi en við því er ekkert að gera. Ef það dregst verulega, í einhvern tíma, einhver ár og við erum að ganga til kosninga, að fá niðurstöðu að því er varðar ESB-umsóknina hlýtur það að koma til skoðunar að leggja fram frumvarp um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er líka (Forseti hringir.) jafnsannfærð um að þó að þjóðaratkvæðagreiðsla varðandi aðild að ESB sé ráðgefandi er hún pólitískt (Forseti hringir.) skuldbindandi að mínu viti.