138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:09]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara mikið inn í umræður um þau málefni sem voru rædd hér í sumar en það er alveg ljóst að það væri miklu betri bragur á því ef um bindandi niðurstöðu yrði að ræða í þjóðaratkvæðagreiðslu í því efni. Ég held að ástæða sé til þess að við veltum því fyrir okkur hér hvort hægt sé að gera breytingar á stjórnarskránni hvað þessa þætti varðar þegar til lengri tíma er litið. Að því leyti heyrist mér að við séum nú sammála um það, ég og hæstv. forsætisráðherra.

Ég átti nú ekki við það þegar ég spurðist fyrir um hvaða mál gætu farið inn í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur, að við ættum að tjá okkur um það sérstaklega í lagatextanum, miklu frekar að við gerðum okkur grein fyrir því um hvers konar tilvik gæti verið að ræða. Ef við setjum almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem er ágætt að hafa til taks, er samt ágætt fyrir þingheim að velta fyrir sér hvers konar mál er þarna um að ræða. Er það þannig að við munum setja erfið ágreiningsmál sem við náum illa samstöðu um hér í þinginu í slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur? Munum við nýta þessa löggjöf til þess að ýta slíkum málum út úr þinginu eða munum við kannski frekar líta á þetta sem langtímamál, (Forseti hringir.) herra forseti, þar sem við setjum stefnumótandi mál fyrir framtíðina í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur?