138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er ég mjög hlynnt því frumvarpi sem hér er komið fram um þjóðaratkvæðagreiðslur. Auðvitað átti fyrir löngu að vera búið að semja slíkt frumvarp og gera það að lögum því að í stjórnarskrá lýðveldisins okkar frá 17. júní 1944 eru þrjú ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Er hún nú orðin rúmlega 60 ára þannig að þetta var orðið tímabært og fagna ég því.

Þó ber að geta þess að þetta frumvarp er lagt fram í skugga ESB-umsóknarinnar. Alltaf þegar mál eru lögð fram í skugga eða af þrýstingi frá öðru máli eru ákveðnar hættur á ferð. Ég tók þátt í vinnu starfshóps um þetta frumvarp og reyndum við að vinna það sem best við máttum. Í hópnum var líka fjallað um stjórnlagaþing og persónukjör. Ég held að ég geti fullyrt að þetta frumvarp er það sem best samstaða varð um og því ber að fagna vegna þess að svona lög þurfa að njóta almenns trausts í þjóðfélaginu og bæði stjórn og stjórnarandstaða á þingi þurfa að geta komið að því. Ég fagna þessu.

Ég ætla ekki að eyða tíma þingsins í þá umræðu sem fór fram í fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um fullveldisafsalið. Ég verð þó að minna á eitt. Auðvitað átti að fara þá leið sem ég lagði til í vor, fyrst og fremst hefði átt að vera fullveldisafsal í stjórnarskránni áður en farið var af stað með umsókn því að eins og ég benti á var þetta ákvæði til staðar í stjórnarskrá norrænu ríkjanna og þar að auki með miklum girðingum. Mig minnir að í norska þinginu þurfi 5/6 þingmanna til að geta farið af stað með þannig mál. Nú er aðeins búið að snjóa yfir þetta hjá mér síðan í sumar en mig minnir að það sé með þessum hætti. Það þarf með öðrum orðum aukinn meiri hluta þingmanna til að geta farið af stað með fullveldisafsal þjóðarinnar og svo ætti að bera það undir þjóðina með þjóðaratkvæðagreiðslum.

Lýðræðisást Samfylkingarinnar nær kannski ekki svo langt að þetta þurfi að gera svona. Við vitum hvernig þetta ESB-mál var keyrt hér í gegn og í gær sagði einn hv. stjórnarþingmaður, Ásmundur Einar Daðason, að hann teldi ekki meiri hluta fyrir málinu í þinginu, hvað þá hjá þjóðinni, þannig að ég minni aftur á að hér er verið að eyða a.m.k. 1.000 millj. kr. í að því er virðist gæluverkefni eins flokks að því leyti að farið var út með þessa umsókn án skilyrða. Þar er það statt eins og staðan er núna og flestir viðurkenna að þjóðin kemur til með að segja nei við því þegar það kemur heim. En við skulum sjá til. Ég ætla ekki að vera með spár fram í tímann. Við sjáum hvað setur.

Í stjórnarskránni eru þrjú ákvæði um að mál skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og eru þau þar með stjórnarskrárbundin. Í 3. mgr. 11. gr. er kveðið á um að Alþingi leggi til að forseti verði leystur frá embætti áður en kjörtímabili hans er lokið. Alþingi getur farið fram á þetta en þá þarf 3/4 hluta þingmanna til þess og þegar Alþingi hefur samþykkt slíkt vantraust skal það fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í 26. gr. er kveðið á um að ef forseti neitar að skrifa undir lagafrumvarp skuli það fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum öll minnug þess hvað gerðist með fjölmiðlalögin árið 2004. Þá reyndi á þetta ákvæði í fyrsta sinn, forseti neitaði að skrifa undir lög og átti að sjálfsögðu að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. En þá stóð þjóðin frammi fyrir því að ekki voru til lög um þjóðaratkvæðagreiðslur sem þó var ákvæði um í stjórnarskránni og það endaði með því að lögin voru dregin til baka lögspekingum til mikillar undrunar. Ekki kom því til þess að á þetta reyndi þá, enda eru eins og ég sagði ekki til lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og hefði engu breytt þó að strax hefði farið af stað vinna með það að leggja fram frumvarp og samþykkja það á þingi. Á þessum tíma skapaðist mikið óvissuástand og var raunverulega með ólíkindum að ekki skyldi hafa verið gripið inn í á þeim tíma og haldið áfram að reyna að smíða frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur á þessum tíma þrátt fyrir að lögin hefðu verið dregin til baka. Nú erum við á ný komin undir pressu með frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur og nú liggur sjálf ESB-umsóknin undir ásamt því að þetta er nauðsynlegt. Ég lít svo á að þetta sé jafnnauðsynlegt nú og það var 1944 þegar stjórnarskráin var samþykkt. En öllu skal fagna því að þetta er gert með góðum hug. Þetta er vandað frumvarp eftir því sem ég get best séð að því leyti að þarna eru ákveðin atriði sem þurfa ekki að lúta stjórnarskrárbundnum þjóðaratkvæðagreiðslum. Þar með eru þær ekki bindandi fyrir stjórnvöld og eru því raunverulega skoðanakönnun meðal þjóðarinnar. Það er ekki hægt að kalla þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki er bindandi annað en skoðanakönnun meðal þjóðarinnar því að þrátt fyrir góðan vilja framkvæmdarvaldsins eins og nú hefur komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra mundi framkvæmdarvaldið aldrei viðurkenna annað en farið yrði eftir skoðanakönnun meðal þjóðarinnar. Málið er flóknara en það því að eins og ég sagði í andsvari áðan getur sú staða komið upp að þjóðin segi nei en þingið segi já og svo öfugt, að þjóðin segi já en þingið segi nei. Slík þjóðaratkvæðagreiðsla getur aldrei orðið annað en leiðbeinandi vegna þessara tæknilegu úrlausnarefna hjá löggjafarvaldinu því að löggjafarvaldið hefur lokaákvörðun um slíkt. Þessar atkvæðagreiðslur fara fyrst og fremst fram á grundvelli þingsályktunartillagna um að vísa máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn fremur eru alþingismenn eingöngu bundnir sannfæringu sinni og engu öðru og alþingismenn rita undir stjórnarskráreið þess efnis er þeir taka sæti á Alþingi.

Þetta er mjög umhugsunarvert. Hv. þm. Ólöf Nordal kom einmitt líka með spurningu í andsvörum áðan um hvaða mál framkvæmdarvaldið sæi fyrir sér að gæti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Varð fátt um svör. Framsóknarflokkurinn lagði fram þingsályktunartillögu á sumarþingi um að Icesave-samningurinn ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst mjög áríðandi að þjóðin hafi eitthvað að segja um eins stór mál og skuldbindingu þjóðarinnar upp á 700–800 milljarða. Það eru þessi stóru mál þegar þjóðin verður að fá að tala, greiða atkvæði með fótunum eins og sagt er og hafa tækifæri til að koma að svo stórum ákvörðunum.

Enn á ný fagna ég þessu frumvarpi þótt það komi fram í skugga ákveðinna atburða því að það var orðið nauðsynlegt að þessar breytingar kæmu fram. Það slær mig örlítið á bls. 4 að þessi klásúla skuli vera sett inn í greinargerð, með leyfi forseta:

„Þess má geta að þegar frumvarp þetta er lagt fram hefur utanríkisráðherra nýverið lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þar er jafnframt ráðgert að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um mögulegan aðildarsamning að loknum samningaviðræðum við sambandið.“

Það er ekkert verið að fela þetta sem ég var að tala um, að frumvarpið er lagt fram í skugga og undir þrýstingi ákveðins máls. En þetta er staðreyndin og það er ágætt að það komi þá kinnroðalaust inn í greinargerðina. Þá er það viðurkennt og með vitund þeirra sem um þetta fjalla í allsherjarnefnd og hér á þingi.

Bara til upplýsingar, stundum er talað um að ekki hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi en þrisvar sinnum fóru þær fram á fyrri hluta 20. aldar. Árið 1905 fór fyrst fram þjóðaratkvæðagreiðsla um áfengisbann, 1915 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þegnskylduvinnu og 1933 um afnám áfengisbanns. Því ber að fagna að í öllum þessum þjóðaratkvæðagreiðslum var farið eftir niðurstöðunni en svo komum við inn á árið 1944 þar sem stjórnarskráin tók gildi og síðan hefur ekki farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Framsóknarflokkurinn er lýðræðissinnaður flokkur og vill að lýðræði í þessu þjóðríki fái notið sín og þess vegna fagna ég því sérstaklega að kominn skuli vera sérstakur lagarammi um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Ég held að ég sé nokkurn veginn búin að greina frá því sem ég vildi sagt hafa við 1. umr. Nú fer þetta mál til allsherjarnefndar þar sem ég á sæti. Við komum til með að skoða það vel á ný. Málið var lagt fyrir á sumarþingi en varð ekki útrætt þá. Mig minnir að það hafi ekki verið tekið sérstaklega fyrir í allsherjarnefnd en formaður allsherjarnefndar er hér og leiðréttir mig þá ef mig misminnir. Nú fáum við þetta til umfjöllunar og aðilar fá aðkomu að þessu máli með því að senda inn umsagnir. Ég verð að segja að ég hlakka til að takast á við þetta verkefni í allsherjarnefnd því að verkefnið er afar brýnt.