138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Samfylkingin er söm við sig, reynir að ala aðra þingmenn upp en þó að það sé hennar skoðun að ég hafi verið að gera lítið úr málinu er ekki svo. Skoðanakönnun sem ekki er bindandi fyrir stjórnvöld má orða á þann hátt að þetta sé skoðanakönnun meðal þjóðarinnar og þingmaðurinn verður bara að eiga það við sig ef hún er ósammála þessu. Í reynd er þetta það sem málið fjallar um, hún er ekki bindandi og bindur ekki stjórnvöld.

Hv. þingmaður lýsti því einnig yfir að hún ætti erfitt með að ganga gegn vilja þjóðarinnar kæmi þetta inn á borð. Þingmenn verða náttúrlega að gera upp við sjálfa sig hvort þeir gangi gegn vilja þjóðarinnar eða gangi gegn vilja sinnar eigin sannfæringar. Það eru ákvæði um það í stjórnarskránni að þingmenn skuli bundnir af sannfæringu sinni. Ég minni á að það kom fram í þingræðu í gær hjá stjórnarþingmanni, hv. þm. Ásmundi Daða Einarssyni, að hann teldi ekki meiri hluta fyrir t.d. ESB-umsókninni í þingsal. Skilaboðin eru þau að einhverjir ákveðnir þingmenn hafa gengið með ríkisstjórninni í þeirri atkvæðagreiðslu en á móti sannfæringu sinni. Það má lesa úr orðunum.

Þegar upp er staðið á efsta degi, þegar þingmenn greiða atkvæði, verða þeir að gera það upp við sig hvort þeir séu að greiða atkvæði með sannfæringarkrafti sínum og samvisku sinni eða einhverjum öðrum skoðunum sem þeim er kannski sagt að gera. Ég skal ekki segja. Ég greiði hér alltaf atkvæði með samvisku minni og sannfæringu og brýt þá ekki stjórnarskrána í leiðinni en þetta er nokkuð sem þingmaðurinn verður að gera upp við sjálfa sig.