138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[12:27]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í mínu fyrra andsvari reyndi ég eingöngu að draga það fram hvað ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þýðir í raun og veru. Ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um að hér sé um skoðanakönnun að ræða. Ég lýsti sjónarmiðum mínum varðandi það hvernig ég lít á málið þegar þjóðin hefur talað. Ef eitthvert tiltekið mál væri sett í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og niðurstaðan yrði sú að 90% þjóðarinnar væru því fylgjandi ætti ég sem þjóðkjörinn þingmaður samvisku minnar vegna afskaplega erfitt með að ganga gegn þeim afgerandi vilja sem birtist í þeirri ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þó að ég hefði kannski einhvern tíma efast um þau skilaboð sem þjóðin væri að senda mér.

Mig langar líka að nefna í þessu samhengi, herra forseti, að fyrir nokkrum árum fór fram atkvæðagreiðsla um flugvöll í Reykjavík. Það voru mjög skiptar skoðanir um það mál. Það var lýðræðistilraun sem því miður hefur verið töluð niður af mörgum, sérstaklega þó kannski Sjálfstæðisflokknum, en sú lýðræðistilraun heppnaðist að mínu viti mjög vel. Það voru engin fordæmi fyrir því í borgarstjórn Reykjavíkur að vera með hvorki ráðgefandi né bindandi skoðanakönnun. Niðurstaðan varð hins vegar sú að allir borgarfulltrúar, hvar í flokki sem þeir stóðu, hvort sem það voru Vinstri grænir, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur eða Samfylking, töldu sig bundna af þeirri niðurstöðu sem þar birtist þó að niðurstaðan hafi ekkert verið mjög afgerandi. Örlítið fleiri vildu flugvöllinn burt. Kjörnir fulltrúar tóku hins vegar mið af þeirri niðurstöðu og núna er það yfirlýst stefna allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur að flugvöllurinn í Reykjavík eigi að hopa.