138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Það er fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur af því og ég deili með þingmanninum áhyggjum af því að staða íslenskra dómstóla er slæm. Hún var slæm fyrir hrunið og hún er enn verri nú og sérstaklega þegar sú arfavitlausa krafa kemur frá framkvæmdarvaldinu að dómstólar skuli lúta 10% niðurskurði.

Það er alveg hreint með ólíkindum að viðkvæm mál eins og dómsmál, fangelsismál og málefni lögreglunnar skuli þurfa að lúta þeim skilmálum sem ríkisstjórnin hefur sett með þessum flata niðurskurði. Það er eins og ekki sé horfst í augu við vandann því að það eru þessir þættir sem reynir helst á nú eftir hrunið ef hér á að skapast þjóðarsátt um það sem heitir einhverjar niðurstöður og eitthvað sem við þurfum síðan að byggja á til framtíðar til að við eigum yfir höfuð að lifa af sem þjóð.

Það hefur komið fram að sú ákvörðun var tekin að lækka hér laun dómara og fer sá liður í fjárlagafrumvarpinu undir fjárlagaliði æðstu stjórnar ríkisins. Þar er mikið skorið niður og í því sem snýr að dómsmálaráðuneytinu fær Hæstiréttur einungis 99 milljónir. Það er alveg með ólíkindum hvað honum eru áætlaðar lágar upphæðir og þess vegna er þetta afar skrýtið. Ég hef miklar áhyggjur af dómsvaldinu. Þetta snýr að þrígreiningu ríkisvaldsins. Nú þegar hefur komið í ljós að Bretar og Hollendingar treysta ekki íslenskum dómstólum í Icesave-málinu, það kom fram í máli bresks lögfræðings á fjárlaganefndarfundi í vikunni.

Staðan er grafalvarleg og ef framkvæmdarvaldið ætlar að skrúfa allt það sem snýr að dómstólum landsins niður (Forseti hringir.) eigum við ekki endurreisnar von.