138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Þá vil ég jafnframt þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir gagnlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu dómstólanna. Ég styð beiðni hæstv. dómsmálaráðherra um aukin fjárlög til að leysa úr aðsteðjandi bráðavandamáli sem slæm fjárhagsstaða dómstólanna mun fela í sér. Það þýðir að það tekur óratíma að fá niðurstöðu í dómsmálum, svo langan tíma að í sumum tilfellum geng ég svo langt að líta á það sem mannréttindabrot. Nú ber svo við að á næstunni mun verða mikil holskefla af nýjum málum er tengjast hruninu og það er afar brýnt að þau mál fái eðlilega og hraða afgreiðslu til að í samfélaginu skapist á ný sátt sem verður aðeins sé réttlætið tryggt. Traust á stjórnsýslu mun án efa halda áfram að rýrna ef ekki verður tekið á þessu nú þegar.

Þá tek ég líka undir orð hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um þennan flata niðurskurð á dómstólana, fangelsismálin og lögregluna, og eins og kom fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar er alveg ótrúlega ósanngjarnt að skorið sé af Hæstarétti í báða enda. Ég vænti þess og vona að tekið verði á þessu og tekið tillit til þessara mála í fjárlaganefnd. Ég á ekki von á öðru en að hv. þingmenn í fjárlaganefnd taki þetta til sín.