138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:54]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það verður að spyrja hér í þessari umræðu: Hvert ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins að sækja það fjármagn sem þarf til að svara því neyðarkalli sem hér hefur lýst sem svo? (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … verkefnið.) Hvert ætla þeir að sækja þá peninga sem þarf til að reka þetta?

Það er ástæða til að fagna því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins boði hér til umræðu um fjármál dómstólanna og flíka þeim skyndilegu áhyggjum sem þeir hafa af þessum málaflokki því að ekki höfðu þeir þær þegar þeir stjórnuðu honum fyrir nokkrum mánuðum. Þvert á móti verður ekki betur séð af lestri úr ræðusafni Alþingis, ef menn vilja rifja það hér upp, að þeir hafi haldið uppi þeim málflutningi, með leyfi forseta, „að auknar fjárveitingar einar og sér breyti engu um fjölda dómara eða hve mörgum málum hver dómari þarf að sinna“. Tilvitnun lýkur í orð fyrrverandi dómsmálaráðherra.

Ég hef á síðustu mánuðum kynnt mér sem nýr þingmaður (Gripið fram í.) stöðu lögreglunnar, stöðu fangelsismála og stöðu dómstólanna. Þessir málaflokkar falla undir málefni allsherjarnefndar þar sem ég á sæti eins og hv. málshefjandi Ólöf Nordal. Það undrar mig mjög hversu þröngt þessum mikilvægu stofnunum er sniðinn stakkurinn, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það veldur gífurlegri undrun að þessar stofnanir séu þannig úr garði gerðar og þannig búnar undir að takast á við hlutverk sín að ekkert megi út af bera til að rekstur þeirra verði kominn út á hlið. Það er einfaldlega staðreyndin sem blasir við. Þetta ber ekki góðan vitnisburð um fyrirhyggju í rekstri. Beittu þeir sér ekki fyrir skattalækkunum, þeir sömu einstaklingar og nú tala um brjálæðislegar skattahugmyndir núverandi meiri hluta?

Hvert ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins að sækja það fjármagn sem þarf til að svara þessu neyðarkalli? Það er mikilvæga spurningin sem þeir verða að svara í þessari umræðu hér. Það er ekki málefnalegt að tala hérna eina stundina um brjálæðislegar skattahækkanir og hina um að aukið fjármagn þurfi í þennan málaflokk. Hvert ætla sjálfstæðismenn að sækja þessa fjármuni? [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (SVÓ): Hljóð í þingsalnum.)