138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:05]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þetta er mál sem ég fagna mikið. Af hálfu ríkisstjórnar Íslands liggur hér frammi frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Að mínu viti er þetta nánast fordæmalaust. Hér ákveður ríkisstjórnin að búa til ramma um það að þjóðin sjálf geti sagt álit sitt á hinum ýmsu málum sem talið er nauðsynlegt að leita til hennar með. Þetta er nýmæli á Íslandi, nýmæli í lýðræðisríkinu Íslandi og þetta er mikið framfaraskref. Það kemur fram samhliða öðrum mikilvægum lýðræðisumbótum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, persónukjörsmálið sem komið er til allsherjarnefndar er mjög mikilvægt. Þó að ég hafi ýmislegt við fyrirhugað frumvarp um stjórnlagaþing að athuga er hugmyndin að baki því engu að síður mjög mikilvæg.

Það sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi hér í morgun um væntanlegt frumvarp um jafnan atkvæðisrétt og það að gera landið að einu kjördæmi er vitaskuld gríðarlega mikilvægt mál þannig að ég kýs að líta svo á að hér sé við völd mjög lýðræðislega sinnuð ríkisstjórn sem er umhugað um lýðræðið, a.m.k. miðað við þessi fyrstu skref í þá átt. Ef tekst að fylgja þessum málum eftir af skynsemi og með almennan hag kjósenda í landinu í huga er hér um einhver mikilvægustu framfaraskref lýðveldissögunnar að ræða. Ég þakka kærlega fyrir það og mér finnst gaman að geta verið þátttakandi í því.

Þetta frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur var unnið að einhverju leyti af vinnuhópi sem var skipaður af hálfu forsætisráðuneytisins og ég átti sæti í. Við í Hreyfingunni vorum ekki mjög hrifin af því hvert þetta mál stefndi í þeim vinnuhópi og kusum því, eftir mjög ítarlegar tilraunir, að koma fram með okkar eigið frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem við töldum nauðsynlegt að kæmi fram, að lengra yrði farið í lýðræðisátt en fyrirliggjandi frumvarp hæstv. forsætisráðherra. Ég mun nú tæpa aðeins á þeim atriðum og ástæðum fyrir því.

Þau atriði sem ég tel mikilvægt að fara yfir í þessu framkomna frumvarpi eru þess eðlis að alltaf er hætt við að þjóðaratkvæðagreiðslur sem fari fram eftir þessu frumvarpi til laga verði mjög pólitískt umdeilanlegar, kannski fyrst og fremst af þremur til fjórum ástæðum. Sú fyrsta er að það er algerlega og eingöngu á valdi pólitísks meiri hluta þingsins hvort haldnar verða þjóðaratkvæðagreiðslur Ákvörðun um orðalag og framsetningu spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslu er Alþingis og pólitískt kjörinnar landskjörstjórnar og pólitísks dómsmálaráðherra. Þjóðaratkvæðagreiðslur geta farið fram samhliða öðrum kosningum sem dregur úr mikilvægi þeirra. Fjórða atriðið er að þetta er að einhverju leyti pólitísk stofnanavæðing þjóðaratkvæðagreiðslna að mínu mati.

Það kemur skýrt fram í fyrstu 10 greinum frumvarpsins með hvaða hætti þessi pólitíska stofnanavæðing er. Í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Alþingi getur ákveðið með þingsályktun …“

Í 3. gr. segir:

„… Alþingi, að fenginni umsögn landskjörstjórnar …“, „Alþingi getur ákveðið …“, „Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið ákveður orðalag og framsetningu spurningar …“, „Dómsmála- og mannréttindaráðherra setur nánari reglur um útlit og frágang kjörseðla.“

Í 4. gr. segir, með leyfi forseta:

„Þjóðaratkvæðagreiðsla … skal fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi.

Þjóðaratkvæðagreiðsla skal fara fram innan tveggja mánaða eftir að krafa Alþingis er samþykkt …

Heimilt er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum þessum samhliða kosningum til sveitarstjórna eða Alþingis eða forsetakjöri.“

Í 5., 6., 7. og 8. gr. segir:

„Alþingi skal ákveða kjördag …“

„Alþingi skal standa fyrir víðtækri kynningu á því málefni sem borið er undir þjóðaratkvæði …“, „Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið skal svo fljótt sem verða má og eigi síðar en viku fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar senda öllum heimilum í landinu sérprentun laganna …“

„Undirkjörstjórnir, yfirkjörstjórnir og landskjörstjórn eru hinar sömu og við alþingiskosningar.“

„Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið lætur yfirkjörstjórnum í té kjörseðla …“

Í 9. gr. er talað um „undirkjörstjórnir oddvita yfirkjörstjórnar“ og í 10. gr. er um „yfirkjörstjórn“ og „landskjörstjórn“.

Virðulegi forseti. Þetta er að mínu viti einum of mikil pólitísk stofnanavæðing fyrir ramma utan um þjóðaratkvæðagreiðslur. Reynsla okkar í Hreyfingunni, áður Borgarahreyfingunni, af t.d. yfirkjörstjórnum er slæm. Tvær kjörstjórnir reyndu að koma í veg fyrir framboð Borgarahreyfingarinnar í síðustu kosningum á algjörlega ómálefnalegum forsendum. Þrátt fyrir að við hefðum staðfestingu dómsmálaráðuneytisins sjálfs á því að framboðið væri í lagi var reynt að koma í veg fyrir það án allra raka. Við þurftum að fara í mikla vinnu við að endurvinna framboðið og náðum því rétt innan mjög snarps tímaramma sem yfirkjörstjórn hafði sett. Sú umgjörð sem er um almennar kosningar er í sjálfu sér ekki góð og hún er því síður góð við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem þurfa að fara fram á eins flokkspólitískt hlutlausum svæðum og mögulegt er að hafa þær.

Í frumvarpi Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur eru fjögur eða fimm meginatriði sem ég vil tæpa aðeins á. Það fyrsta er náttúrlega það að framlagt frumvarp ríkisstjórnarinnar veitir ekki valdhöfum það nauðsynlega aðhald sem yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðsla, sem hægt væri að boða til af hálfu almennings eða minni hluta þingmanna, mundi gera, þ.e. hún veitir ekki valdinu aðhald. Að mínu viti er mjög nauðsynlegt að hafa þann varnagla í öllum lýðræðisríkjum að sitjandi valdhöfum hverju sinni sé veitt einhvers konar aðhald þó að þröskuldurinn til þess að ná því fram geti verið mismunandi hár.

Annað atriðið er að þetta aðhald er, eins og fram kemur í frumvarpi Hreyfingarinnar, skilgreint sem 10% kosningarbærra manna sem geta með undirskrift sinni krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Það veitir aðhald af almennings hálfu. Í þessum töluðu orðum eru þetta í kringum 18.500 undirskriftir. Það er ekki auðvelt að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu með þessum hætti. Það er gríðarleg vinna að safna svona undirskriftum þannig að aldrei yrðu haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur um einhver hefðbundin dægurmál ef menn hafa áhyggjur af því.

Þar er líka tekið fram að einn þriðji hluti þingmanna geti krafist þess með þingsályktun að slík þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur bent á að í danska þinginu er þetta bundið við kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem fyrir liggi á þinginu. Ég held að það sé ágætisrammi utan um vald minni hluta þingmanna ef það nær fram að ganga. Þessu ákvæði um minni hluta þingmanna í Danmörku hefur einungis einu sinni verið beitt þar. Að mínu viti mun þetta leiða til lagasetningar sem verður að öllu jöfnu óumdeildari og mun krefjast meiri ábyrgðar af þingmönnum í þingstörfum, ummælum á þingi og við afgreiðslu frumvarpa. Það væri til mikilla bóta fyrir starf löggjafarvaldsins á Íslandi.

Þriðja atriðið sem ég vil tæpa á sem mikilvægu er eins og ég sagði í ræðu minni að þjóðaratkvæðagreiðslur eru mikilvægari lýðræðinu en svo að þeim megi eingöngu beita fyrir atbeina þess pólitíska meiri hluta Alþingis sem situr hverju sinni eða forseta Íslands líkt og verið hefur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Því fórum við þá leið að endurbæta frumvarp vinnuhópsins þannig að það endurspeglaði kröfu almennings, þ.e. þess almennings sem við vorum hluti af í fyrravetur, um aukið lýðræði, kröfuna um að almenningur á Íslandi geti haft meira að segja um sín brýnustu hagsmunamál og mikilvægustu mál lands og þjóðar og geti gert það fyrir eigið frumkvæði og fyrir eigin atbeina. Þetta tel ég mjög mikilvægt, að þjóðin geti haft þetta vald.

Fjórða atriðið sem mig langar að tæpa á um þetta mál, virðulegur forseti, varðar Lýðræðisstofu og það mikilvæga atriði að þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram í flokkspólitískt hlutlausu landslagi að því marki sem mögulegt er. Þar er hugmyndin að Lýðræðisstofu komin. Hér segir í greinargerð um 2. gr. frumvarps Hreyfingarinnar, með leyfi forseta:

„Í greininni er lagt til að stofnuð verði Lýðræðisstofa og að umboðsmaður Alþingis fari með yfirstjórn hennar. …

Hugmyndin með stofnun Lýðræðisstofu er að tryggja að hlutleysis sé gætt við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, m.a. við kynningar á því málefni eða lagafrumvarpi sem samþykkt hefur verið að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um. Þá er mikilvægt að viðkomandi stofnun og sá sem henni stýrir njóti trausts almennings og telja flutningsmenn að það sé óumdeilt að umboðsmaður Alþingis njóti þess.“

Útfærslan á þessu atriði er svo skýrð nánar í greinargerð frumvarpsins og ég hlakka til að útskýra það nánar í allsherjarnefnd þegar málið kemur þar inn.

Ég vil líka geta þess að í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá því í sumar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er vísað í Lýðræðisstofu. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur brýnt að öll umgjörð þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði opin og lýðræðisleg og er sérstaklega mikilvægt að vanda til þeirra verka í ljósi þess að þjóðaratkvæðagreiðslur eru afar fátíðar hér á landi. Í því efni er nauðsynlegt að setja sérstök lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, en tvö frumvörp þar að lútandi liggja nú fyrir Alþingi. Meiri hlutinn leggur til að stofnuð verði sérstök skrifstofa, Lýðræðisstofa, t.d. á vegum umboðsmanns Alþingis sem þá mundi ráða starfsmenn stofunnar eftir því sem verkefni gefa tilefni til.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að Lýðræðisstofa fari með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og ákveði efni og orðalag þeirrar spurningar sem lögð verður fyrir kjósendur. Einnig ákveði hún kjördag fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu … Stofan skuli sjá um auglýsingu atkvæðagreiðslunnar með áberandi hætti og þar skuli einnig birta spurninguna sem lögð verður fyrir kjósendur.“ Og svo framvegis um aðkomu Lýðræðisstofu.

Þessi Lýðræðisstofa er nokkuð sem ég hef persónulega séð virka í einu þeirra landa sem ég bjó í um árabil, en þar sá sérstök skrifstofa innan stjórnsýslunnar um að taka fyrir alltaf af og til öll þau mál sem áttu að koma til þjóðar- eða fylkisatkvæðagreiðslu. Ég sá með eigin augum hvernig mjög flókin mál voru gerð mjög einföld og hvernig mjög pólitískt umdeild hitamál voru framreidd á hlutlausan máta fyrir almenning með einfaldri framsetningu þannig að það var aldrei deilt um atkvæðagreiðsluna sjálfa eða framkvæmd hennar þó að menn deildu um málefnin. Þetta hefur gríðarlega mikið að segja fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur til að þær geti farið fram með sem hlutlausustum hætti.

Hæstv. ráðherra tæpti á þessum atriðum úr frumvarpi Hreyfingarinnar í ræðu sinni áðan og nefndi að e.t.v. vantaði að formgera þau betur þannig að þau héldu vægi sínu eða næðu fram að ganga. Tillaga mín er sú að við tökum þau til athugunar í allsherjarnefnd og reynum þá að formgera þau betur þannig að þau haldi vægi sínu og verði með í einhvers konar frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu sem hægt væri að slá saman úr þessum tveimur frumvörpum. Þetta er mjög mikilvægt mál og það er mjög mikilvægt að það sé sett fram á þann veg að almenningur fái á tilfinninguna að hann sé ekki svikinn um eitt eða neitt í þessu máli. Ég tel að það sé hægt með því að slá þessum tveimur frumvörpum saman að einhverju leyti í allsherjarnefnd eða reyna að gera það og óska þess jafnframt að áframhaldandi vinna þessarar ríkisstjórnar í lýðræðismálum haldi áfram af fullum krafti og þá með aðkomu fleiri ef mögulegt er.

Eins og ég hef áður tæpt á, og kannski er vitað, eru víðtækar lýðræðisumbætur upphaf og endir í rauninni tilgangs Hreyfingarinnar og ástæða þess að hún er á þingi. Við leggjum mikla áherslu á þessi mál og að þau séu í vönduðum búningi og vel fram sett. Ég lýk máli mínu með því enn einu sinni að fagna því að þetta mál er hér komið fram sem og fleiri lýðræðismál af hálfu ríkisstjórnarinnar.