138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[14:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er sammála honum hvað þetta snertir og þá stefnubreytingu sem orðið hefur og þarf að verða. En ástæða þess að ég tók til máls í morgun er varðaði Lýðræðisstofu snerist um það að í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er fjallað nokkuð ítarlega um Lýðræðisstofu og í rauninni skilgreint óbeint hvernig hún skuli starfa og hvernig þessi spurning skuli lögð fram. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa úr nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er varðar Evrópusambandsumsókn:

„Í tillögunni er gert ráð fyrir að Lýðræðisstofa fari með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og ákveði efni og orðalag þeirrar spurningar sem lögð verður fyrir kjósendur.“

Svo er fjallað um þetta áfram og m.a. um það að Lýðræðisstofa setji nánari reglur um útlit og frágang kjörseðla. Í rauninni er þetta þvert á það frumvarp sem nú er til umræðu.

Mig langar að beina tveimur spurningum til hv. þingmanns sem snerta þetta. Í fyrsta lagi hvort það hafi ekki komið honum spánskt fyrir sjónir að þetta væri ekki inni í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem nú er lagt fram um þjóðaratkvæðagreiðslur og er að hluta til ætlað að dekka þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandið. Í öðru lagi hvort þetta hafi ekki komið frá Borgarahreyfingunni sem þá var og Hreyfingunni núna inn í þetta nefndarálit utanríkismálanefndar á sínum tíma.