138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:06]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Þetta mál sem er á borðinu hjá okkur, frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur, á sér töluvert langan aðdraganda bæði á þingi og úti í samfélaginu. Ég hygg að á stefnuskrá flestra flokka sé að ástæða sé til að fara í breytingar af þessu tagi en það hefur líka verið í umræðunni um langa hríð í þeim stjórnarskrárnefndum sem hafa verið starfandi að stjórnarskránni verði breytt á þann veg að hægt sé að fara í þjóðaratkvæðagreiðslur og það skuli tryggt hvernig með skuli fara gagnvart stjórnarskránni.

Þær breytingar hafa eins og kunnugt er ekki náð fram að ganga, kannski vegna þess að menn hafa á sama tíma verið að véla um mjög flókin og umdeild atriði í þeim stjórnarskrárnefndum, atriði sem eru pólitískt umdeild, t.d. breytingar hvað varðar auðlindamál og ýmsa slíka hluti. Ég hygg að þessi þáttur málsins, þjóðaratkvæðagreiðslur, hafi ekki verið það umdeildasta sem menn hafa verið að fjalla um í stjórnarskrármálinu. Vegna þess að fyrr í dag var rætt um stjórnarskrárumræðuna sem var á vordögum hygg ég að sá ágreiningur sem uppi var í þingsölum þá hafi snúist um aðra hluti en það hvort ástæða væri til að gera breytingar á stjórnarskrá til að koma inn ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Í sumar reyndi síðan strax á skoðanir manna hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur og hvernig þær skyldu vera í pottinn búnar, hvort um ætti að vera að ræða bindandi atkvæðagreiðslu um mál sem varðar Ísland mikið. Þar er ég auðvitað að tala um Evrópusambandsmálið. Ég ætla mér ekki að tala mikið um það að þessu sinni en ég held að það hefði verið betra að við hefðum getað náð saman um það á vorþinginu að stjórnarskránni yrði breytt hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að hægt hefði verið að fara í bindandi þjóðaratkvæði vegna Evrópusambandsaðildarinnar.

Ég ætla ekki að setja á langt mál að þessu sinni. Þetta mál mun fara inn í allsherjarnefnd og við munum taka það til athugunar. Fyrir liggur þingmannamál eins og hér er fram komið frá Hreyfingunni þar sem einnig er ákveðin útfærsla á þjóðaratkvæðagreiðslum og ég hygg að það verði að einhverju leyti rætt í allsherjarnefnd þegar að því kemur.

Mér finnst samt skipta verulegu máli í þeirri umræðu allri að menn velti fyrir sér hvers konar mál það eru sem eðlilegt er að verði sett í ráðgefandi þjóðaratkvæði. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir lýsti því áðan að henni fyndist eðlilegt að nefndin skoðaði það. Í mörgum löndum er töluverð hefð fyrir því að mál séu leidd til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslum. Sú þjóð sem er komin lengst í því er Sviss þar sem sú hefð er mjög sterk. Þegar menn stíga skref í þessa átt eins og við gerum núna held ég að það sé afar mikilvægt að þingheimur hafi velt því fyrir sér um hvers konar mál þarna eigi að vera að ræða og hvað menn ætli síðan að fá út úr því að fá niðurstöðu þjóðarinnar í þeim málum.

Ég er ekki viss um að það sé heppilegt að í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sé beint málum sem eru pólitískt umdeild á viðkomandi stundu. Hér hefur verið nefnt mál af því tagi, Icesave-málið, og hægt er að nefna mörg fleiri. Ég held að það skipti kannski ekki endilega máli fyrir okkur að nefna það einmitt núna en ég held að það geti verið dálítið flókið að fá niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem eru umdeild vegna ákveðinna atburða í þjóðfélaginu. Ég spyr mig líka að því hvernig menn ætli síðan að glíma við niðurstöðu þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ráðgefandi.

Þess vegna finnst mér ákaflega mikilvægt og ég sakna þess í greinargerð að ekki sé gerð tilraun til að meta um hvers konar þjóðaratkvæðagreiðslu þarna er að ræða og einnig hvernig menn hafa fjallað um þetta í þeim löndum sem við berum okkur saman við, hvers konar mál þar er um að ræða. Mundum við t.d. vilja fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem varða framtíðarhagsmuni Íslendinga, framtíðarstefnumótunarmál af einhverjum toga? Hvað er þetta? Hvað ætlum við að gera í þessu? Frumvarpið gerir síðan ráð fyrir ákveðnu ferli þegar á að láta reyna á þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar menn þurfa að leggja fram þingsályktunartillögu um einstök mál sem eiga að fara í þjóðaratkvæði held ég að það gæti orðið til þess að töluverð umræða yrði um það í þinginu á hverjum tíma ef ekki væri einhver ákveðin vísbending um vilja Alþingis.

Þetta tel ég skipta verulegu máli þegar litið er til þess hvernig við fjöllum um þetta mál í allsherjarnefnd. Mér finnst þetta mál, af þeim málum sem eru nú að fara inn í allsherjarnefnd og eru kölluð lýðræðisumbætur — hvað sem það merkir í sjálfu sér, þetta er dálítið gildishlaðið orð — vera nokkuð sem er ástæða fyrir okkur Íslendinga að hafa í okkar lagaumhverfi. Það hefur verið skoðun margra um langa hríð að það sé eðlilegt að svo sé. Við höfum í sjálfu sér ekki oft velt slíku fyrir okkur, að það þurfi að leggja ákveðin mál undir dóm þjóðarinnar. Ég hygg að þetta Evrópusambandsmál hafi kannski verið það stórfenglegasta enda er það eitt okkar brýnasta hagsmunamál til mjög langs tíma.

Þegar fjölmiðlamálið svokallaða kom upp og forseti lýðveldisins synjaði því frumvarpi staðfestingar komu í ljós ákveðin vandkvæði í stjórnarskránni hvað þetta mál varðaði, stjórnskipulegur vandi þegar slík staða kemur upp. Það kallaði á ákveðna umræðu um hvernig með skyldi fara. Ég held því að þegar við ræðum þetta mál sé óumflýjanlegt að í leiðinni sé rætt hvort gera eigi breytingar á stjórnarskránni. Ég segi það alveg eins og er að mér finnst að Alþingi geti gert breytingu á afmörkuðum þáttum stjórnarskrárinnar án þess að allt þurfi að fara á hliðina. Mér finnst ekki að kalla þurfi saman heilt stjórnlagaþing til að gera þessa breytingu á stjórnarskránni. Ég tel að menn ættu að skoða þetta sérstaklega vegna þess að ég hygg að menn hafi haft ákveðinn áhuga á þessu í öllum flokkum í mjög langan tíma.

Þetta mun síðan verða rætt í allsherjarnefnd. Mér finnst ekki ástæða til að tæpa á einstökum ákvæðum í þessu frumvarpi. Það þarf að rýna í það og ræða það af skynsemi og ég veit að það verður gert í allsherjarnefnd. Síðan fer þetta sinn veg í þinginu og því finnst mér að þessu sinni skipta langmestu máli að leggja áherslu á að menn hugsi um það fyrir fram, áður en málið fer í sinn endanlega búning, hver tilgangurinn er, hvað menn ætli að fá út úr þessu og hvers konar mál það eru sem ætlunin er að leggja undir þjóðaratkvæði vegna þess að ég gat ekki heyrt af máli hæstv. forsætisráðherra að það hefði verið hugsað með sérstaklega skynsamlegum hætti.