138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég átti við þegar ég ræddi um þær stjórnarskrárbreytingarnar sem urðu hér í vor var að í fyrsta skipti í mjög langan tíma voru þær stjórnarskrárbreytingar settar fram í ágreiningi milli flokka hér í þinginu. Það lá alveg fyrir að skiptar skoðanir voru milli flokkanna um einstök mál í þeim stjórnarskrárbreytingum og þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru ekki sáttir við þær breytingar sem þar voru lagðar fram. Engu að síður var ákveðið að gera það. Það sneri ekki að þeim ákvæðum sem varðar þjóðaratkvæði. Þess vegna finnst mér skipta svo miklu máli að draga það fram í umræðunni núna að það var ákveðið að leggja þetta fram í ágreiningi og ágreiningurinn stóð um allt annað en það sem við erum að tala um nú.

Varðandi það hvort þjóðin eigi að geta knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu þá hef ég satt að segja ekki mótað mér mjög sterkar skoðanir á því enn þá. Þetta er nokkuð sem ég hefði viljað fá að skoða þegar það kemur í nefndina, þegar tekið er á málinu í heild sinni.

En fyrst við hv. þingmaður erum farin að ræða hér saman þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji, eða hvort hann sé samþykkur því að haldin sé ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, t.d. á miðju kjörtímabili, til þess að leysa úr Evrópusambandsmálinu sem nú er komið í farveg hér á vettvangi ríkisstjórnarinnar.