138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hennar og vil ítreka það aftur að það er einungis Sjálfstæðisflokkurinn sem var mótfallinn því að auðlindir yrðu í þjóðareign en á þeim forsendum voru þeir tilbúnir til þess að stöðva stjórnarskrárbreytingar sem voru nokkrar og átti að gera hér fyrr á þessu ári. Bara að því sé haldið skýrt til haga.

Hvað varðar atkvæðagreiðslu um Evrópusambandið þá hef ég sagt það og það mun ekkert breytast um það, að ég mun aldrei ýta á græna takkann þegar kemur að því hvort Ísland muni ganga í Evrópusambandið eða ekki. Það verður með atkvæðum annarra þingmanna sem gengið verður í Evrópusambandið. Ég mun aldrei ýta á græna takkann. Það er stjórnarskrárbundinn eiður sem ég er búinn að skrifa hér undir og ég mun aldrei ýta á græna takkann þegar spurningin um hvort ganga eigi að inn í Evrópusambandið kemur.