138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal vera stuttorður. Það að fara í breytingar af þessu tagi, umbætur og breytingar sem varða kosningafyrirkomulag og stjórnskipun og aðra slíka þætti, eru vissulega mikilvæg verkefni. En þau bjarga okkur ekki úr þeirri krísu sem við erum í í dag efnahagslega. Þau redda ekki fjárlagahallanum, þau tryggja ekki tekjur til ríkissjóðs, þau tryggja ekki að fyrirtæki geti haldið áfram að starfa og fari ekki á hausinn, þau tryggja ekki að fólk sem er að missa heimili sín haldi þeim. Við erum með gríðarlega mikilvæg verkefni á borðinu núna. Við eigum að sinna þeim, við eigum að einbeita okkur að þeim. Við getum geymt fram yfir áramót, bara svo dæmi sé tekið, mál af þessu tagi og tekið okkur góðan tíma í að ræða þau þá. Við erum bara með bunka af mikilvægum verkefnum á borðinu (Forseti hringir.) núna og þó að við séum stórkostleg erum við ekki ofurmennsk.