138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var nú ekkert stórfenglegt við ræðu hv. þingmanns áðan. Það eina sem ég var sammála hv. þingmanni í ræðu hans var afstaða hans til Evrópusambandsins en það er ekki til umræðu hér, því miður.

Mér fannst þetta um margt merkileg ræða og raunar kom aldrei fram afstaða hans til þjóðaratkvæðagreiðslna. Ég gat aldrei heyrt á hv. þingmanni hvort hann væri fylgjandi því að við kæmum á þjóðaratkvæðagreiðslum, að hvort heldur þingið eða þjóðin gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki. Því vil ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns: Er hann fylgjandi því að frumvarp sem þetta fari í gegn og er hann almennt fylgjandi því til að mynda að þjóðin eða minni hluti þings geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur?

Meðan ég sat hér og hlustaði á ræðu hv. þingmanns varð mér hugsað til þess hvort hann hafi ekki verið hér og fylgst með því sem gerst hefur á Íslandi, að bankarnir hrundu, að það varð algert rof milli þings og þjóðar, hvort hann hafi ekki fylgst með þessu og hvort hann telji ekki mikilvægt að ná aftur því trausti sem var milli þings og þjóðar, hvort hann telji ekki að frumvarp sem þetta, um þjóðaratkvæðagreiðslur og aukið aðhald þjóðarinnar að þinginu, sé ekki mikilvægt í þessu efni.