138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans, hún var athyglisverð að venju, þegar hann talar legg ég alltaf við hlustir. Við deilum stjórnskipulegum rétti hér eins og ætíð, því að við höfum bent á það í málflutningi okkar og erum sammála um að það er farið á ská, öfugt inn í þetta ESB-mál með þessar þjóðaratkvæðagreiðslur.

Varðandi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem þingmaðurinn talaði um, þá tek ég hjartanlega undir hvert einasta orð og forgangsröðun fjárlaga eins og t.d. var nefnt hér áðan varðandi dómstólana. Ég held að framkvæmdarvaldinu veitti ekki af að fara á nokkurs konar skipulagsnámskeið til að finna út hvað er brýnast í landinu nú, samanber það að heimilin eiga sífellt í meiri erfiðleikum og hér er verið að ræða frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. En þetta er ekkert nýtt hjá núverandi ríkisstjórn að áherslurnar séu rangar og ekki sé verið að taka á því sem máli skiptir.

Ég fékk það í andsvari frá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í dag að lýðræðisást Samfylkingarinnar hefði náð til þess að greidd voru atkvæði um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Nokkur meiri hluti kjósenda í þeirri skoðanakönnun var á móti í atkvæðagreiðslunni og vildi flugvöllinn burt, en flugvöllurinn er þar nú enn og verður líklega um ókomna tíð.

Þess vegna langar mig til að beina spurningu til hv. þingmanns: Ber hann það traust til þeirra stjórnvalda sem nú sitja, sitji þau enn þegar ESB-málið kemur í þjóðaratkvæðagreiðslu, að þau fari eftir atkvæðagreiðslunni séu úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar á þann veg sem þeim eru ekki hentug, þ.e. segi þjóðin nei við ESB-samningnum?