138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[15:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil í upphafi máls míns lýsa því yfir að ég er mjög fylgjandi þeirri hugmyndafræði sem lögð er upp með í frumvarpinu og ég er jafnframt mjög fylgjandi grunnhugmyndum frumvarps hv. þingmanna Hreyfingarinnar ásamt Þráni Bertelssyni sem var til umræðu hér í síðustu viku. Margir hafa bent á að þetta mál sé ekki mjög mikilvægt nú um stundir og að önnur mál séu brýnni. Vissulega erum við að glíma við mörg mjög erfið og stór mál, fjárlagafrumvarpið, endurreisn efnahagslífsins o.fl., en ég held að eftir að það sem gekk á í fyrrahaust þegar bankarnir hrundu hafi orðið algjört rof milli þings og þjóðar. Það er alveg staðreynd. Þau mótmæli sem urðu við Austurvöll og ástandið í þjóðfélaginu þá var til þess fallið að nauðsynlegt var að grípa til aðgerða, ekki bara efnahagslegra aðgerða, heldur líka aðgerða til þess að efla og byggja upp á ný traust milli þings og þjóðar. Ég held að þetta frumvarp sé stór liður í því.

Þjóðaratkvæðagreiðslur og það að hægt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um ákveðin mál hefur vissulega verið í umræðunni lengi og margir hafa léð máls á þessu í gegnum tíðina. Nú held ég að brýnt sé að þetta frumvarp nái fram að ganga en hef hins vegar við þetta ýmsar athugasemdir sem ég ætla að reifa hér.

Persónulega hugnast mér betur ýmislegt í frumvarpi Hreyfingarinnar. Þar nefni ég fyrst og fremst það að ákveðinn hluti þingmanna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu, minni hluti þingmanna, auk þess sem ákveðinn hluti kosningarbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskrift sinni. Hins vegar hef ég ákveðnar efasemdir um prósentutölurnar og velti fyrir mér hvort 10% sé rétt tala, eða 12% eða 15% eða einhver önnur tala.

Persónulega er ég ekki mótfallinn því að skoða að sett verði á stofn einhvers konar Lýðræðisstofa og hef rætt það töluvert hér í dag í andsvörum. Ég er frekar neikvæður fyrir því en vil skoða það, og vil skoða hvernig þetta hefur verið í öðrum löndum. Hv. þm. Þór Saari kom inn á það í sinni ræðu að þetta hefði gefist vel í öðrum löndum og ég er tilbúinn til að skoða það og finnst að allsherjarnefnd eigi að skoða það mjög gaumgæfilega.

Athugasemdir mínar hér í dag varðandi Lýðræðisstofu snerust kannski ekki málefnalega um sjálfa Lýðræðisstofuna, heldur það að í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er fjallað mjög ítarlega um þessa Lýðræðisstofu. Það vakti furðu mína. Ég veit til þess að þetta fór inn í meirihlutaálit utanríkismálanefndar á síðustu metrunum. Hún var ekki inni fyrr en á síðustu metrunum. Það gefur kannski til kynna þau vinnubrögð sem voru við þá umsókn alla og það umsóknarferli. Ég er ekki að gagnrýna hugmyndafræðina hvað snertir þetta með Lýðræðisstofuna. Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er þessu lýst mjög ítarlega og mig langar að lesa hérna, með leyfi forseta:

„Í tillögunni er gert ráð fyrir að Lýðræðisstofa fari með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og ákveði efni og orðalag þeirrar spurningar sem lögð verður fyrir kjósendur. Einnig ákveði hún kjördag fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þó eigi síðar en sjö mánuðum eftir að ákveðið er að efna til hennar. Stofan skuli sjá um auglýsingu atkvæðagreiðslunnar með áberandi hætti […]. Lýðræðisstofa setji nánari reglur um útlit og frágang kjörseðla.“

Um ein blaðsíða fer í að útskýra nákvæmlega hvernig Lýðræðisstofa á að starfa og fúnkera. Athugasemdir mínar um þetta snerust um að svona mikil stefnubreyting, vil ég meina, skuli tekin inn í nefndarálit til þess að kaupa atkvæði til þess að styðja Evrópusambandsumsókn. Það er mín skoðun hvað varðar þessa Lýðræðisstofu og aðdragandann að því hvernig hún fór inn í nefndarálitið. Þá er ég ekki að gagnrýna hugmyndafræðina á bak við Lýðræðisstofu, hana er ég tilbúinn til að skoða þótt ég hafi lýst því yfir að ég hafi ákveðnar efasemdir um það en vilji kynna mér það betur.

Þá kemur að þessu frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ég persónulega er mjög fylgjandi og vil að þetta mál nái fram að ganga. Ég vil að það gangi lengra en frumvarp til að mynda ríkisstjórnarinnar. Mér kemur mjög spánskt fyrir sjónir að í athugasemdum við frumvarpið sé fjallað um að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi einmitt að taka til umsóknar um Evrópusambandið. Mig langar að lesa, með leyfi forseta, úr athugasemdum við lagafrumvarpið:

„Þess má geta að þegar frumvarp þetta er lagt fram hefur utanríkisráðherra nýverið lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þar er jafnframt ráðgert að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um mögulegan aðildarsamning að loknum samningaviðræðum við sambandið.

Þar sem nauðsynlegt er að setja lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar og ekki hefur áður verið sett löggjöf um efnið er eðlilegt að þetta tilefni verði nýtt til þess að setja almenn lög sem tekur til allra atkvæðagreiðslna af þeim toga án tillits til þess hvort tilefnið er sérstök ákvörðun Alþingis eða atvik sem lýst er í stjórnarskránni.“

Þarna er greinilegt að hugmyndafræði, sumra vil ég meina, er sú að mikilvægt sé að samþykkja þetta frumvarp einmitt af því að við erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þetta verði að vera komið í gegn og orðið klappað og klárt þegar samningaferlinu lýkur. Þess vegna vekur það furðu mína að í nefndaráliti utanríkismálanefndar sé síðan fjallað um það hvernig þessi atkvæðagreiðsla eigi að fara fram, með allt öðrum hætti en kemur fram í þessu frumvarpi sem á að taka yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna um ESB. Þetta finnst mér alls ekki góð vinnubrögð og lýsir nákvæmlega þeim vinnubrögðum sem voru við afgreiðslu Evrópusambandsumsóknarinnar á þingi og vert er að halda lifandi hvarvetna og hvenær sem er.

Það veldur mér áhyggjum að þetta sé á sama tíma og við erum í þessum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ef þetta eru vinnubrögðin sem á að viðhafa í því ferli, og ég tek fram að þetta ferli er ekki í mínu umboði, býð ég ekki í það hvernig aðildarsamning við fáum eða hvernig þetta mun enda.

Þá vil ég koma að því sem mér finnst persónulega þurfa að skerpa hvað mest á í þessu frumvarpi, því að ákveðinn hluti þjóðarinnar geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Það er allt í lagi að undanskilja ákveðin mál og ég veit að ef það er pólitískur vilji til að setja það inn í þetta frumvarp er hægt að finna þann farveg. Ég velti því líka fyrir mér hvort þeir sömu og hafa áhyggjur af að setja það inn í þetta frumvarp hafi áhyggjur af því að hugsanlega þegar aðildarumsóknin er í miðju ferlinu myndist allt í einu samstaða um það hér á landi að draga þá umsókn til baka þegar við verðum vör við að við fáum ekki þær undanþágur sem við óskuðum eftir í sjávarútvegi eða landbúnaði, þegar það kemur á daginn að við getum ekki tekið upp evruna hér á næstu 2–3 árum o.fl. sem búið er að setja inn í umræðuna sem á ekki alls kostar við nokkur rök að styðjast. Þá getur komið upp sú staða, virðulegi forseti, að hér skapist sú stemning meðal þjóðarinnar að draga þessa umsókn til baka. Þá getur ákveðinn hluti þjóðarinnar krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það. Ég velti því fyrir mér af hverju menn eru hræddir við að setja inn í þetta frumvarp að 10%, jafnvel 15%, þjóðarinnar geti knúið þetta fram og ég velti því fyrir mér hvort það geti verið einmitt út af þessu.

Ég ætla ekki að fullyrða neitt í þeim efnum en mér finnst þetta frumvarp hér gríðarlega mikilvægt. Ég bind miklar vonir við að í meðförum þingsins og í allsherjarnefnd myndist með einhverjum hætti sátt um að sameina þessi tvö frumvörp — ég ætla ekki að nota orðið „splæsa“ af því að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir gerði það áðan og fékk athugasemdir fyrir. Ég mun aldrei samþykkja þetta frumvarp nema inn í það komi ákvæði þess efnis að ákveðinn hluti þjóðarinnar geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er algjörlega ljóst að ég mun aldrei samþykkja þetta frumvarp nema það geti orðið.

Aðstæður hér á landi breyttust gríðarlega í fyrrahaust. Þjóðin treysti ekki lengur þinginu. Hér urðu mótmæli á Austurvelli. Það voru algjörlega afbrigðilegar aðstæður og ég held að mikilvægt sé að þjóðin geti haft þetta aðhald á þinginu og að það komi inn í þetta frumvarp. Það er fyrst og fremst það sem ég vil sjá koma yfir úr frumvarpi Hreyfingarinnar eða hvernig sem það er. Ég er hins vegar jákvæður fyrir því að skoða þessa Lýðræðisstofu, vil sjá hvernig hún hefur starfað í öðrum löndum og athuga hvort nefndin getur tekið tillit til þess og hvort það geti farið þarna inn.

Ég tek undir ýmsar athugasemdir sem til að mynda hæstv. forsætisráðherra gerði um Lýðræðisstofu og hugsanlega þarf að skoða þær með einhverjum hætti. Þetta er mín afstaða til þessa máls. Ég er fylgjandi málinu, en vil sjá á því breytingar og vonast til þess að þær geti orðið í meðförum þingsins.