138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Það er ánægjulegt að sjá að hann er búinn að ná sér af flensu og kominn hér og kominn í gírinn.

Fyrir mitt leyti þá svaraði ég þessu áðan, sem snerist um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu sem við ræðum hér. Ég fór mjög vel yfir það í ræðu minni að ég hefði ákveðnar áhyggjur af því að margir þeirra þingmanna sem eru mjög Evrópusambandssinnaðir líti svo á að mikilvægt sé að samþykkja lög um þjóðaratkvæðagreiðslur nú, einmitt vegna umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu. Það er hins vegar ekki mín skoðun á þessu máli. Ég tel þetta mál mjög mikilvægt og mjög brýnt og vil gera á því ákveðnar breytingar eins og ég kom inn á hér áðan með að 10% þjóðarinnar eða annað því um líkt gæti óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál.

En ég hef sagt það hér áðan og hef ávallt sagt að ég mun aldrei segja já við umsókn um aðild að Evrópusambandinu, hvorki um umsókn né inngöngu. Ég er bundinn af mínum eið og ég tel að Ísland eigi ekki að ganga inn í Evrópusambandið. Ég mun því aldrei ýta á græna takkann þegar spurningin kemur um það hvort við eigum að ganga inn í Evrópusambandið.