138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Ég vil taka undir ákveðna þætti sem hv. þingmaður bendir á. Ég er þó ekki alls kostar sammála hv. þingmanni með það að þau frumvörp sem lögð hafa verið hér fram séu algjör rökleysa, bæði frumvarp Hreyfingarinnar og eins það frumvarp sem við ræðum í dag, ég er alls ekki sammála því. Hvað varðar sjálfa Evrópusambandsumsóknina þá mun það verða þannig að ég mun ekki greiða atkvæði með, þrátt fyrir að niðurstaðan verði þessi. En þegar þú talar um aðild að Evrópusambandinu og að minn flokkur eigi aðild að því og ég styðji þá ríkisstjórn sem það geri þá veit hv. þingmaður það mætavel — hann hefur margoft sagt það sjálfur og hefur starfað eftir því hér á þingi þau ár sem hann hefur verið hér og ég hef fylgst með honum, að það er bara tvennt sem þingmaður er bundinn af þegar hann styður ríkisstjórn, það er annars vegar að styðja fjárlögin og hins vegar það að verja stjórnina falli. Þessi Evrópusambandsumsókn er ekki hér í mínu umboði og það veit hv. þingmaður mætavel.