138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að það er engin ástæða til þess að öll stjórnsýslan eigi að vera í höfuðborginni sjálfri. Ýmis störf eru væntanlega mun betur komin annars staðar en hér, bæði vegna eðlis þeirra og aðgangs þeirra sem þurfa að sækja þjónustuna. Það er ekkert lögmál í sjálfu sér að stjórnstöðin, og ég tala ekki um á þessari öld þar sem vel er hægt að koma á rafrænni stjórnsýslu, sé endilega í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu eða að opinber störf almennt séu þar. Ég sé enga ástæðu til þess og tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að svo sannarlega má skoða þá hluti. Ég er enn þá á því, og gef mig ekkert í því, að lýðræðishallann þurfum við að byrja á því að laga á Íslandi áður en við förum að velta fyrir okkur að laga lýðræðishallann í Evrópusambandinu. Við segjum á Íslandi „einn maður, eitt atkvæði“ og síðan skulum við láta til okkar taka ef við komumst á hinn staðinn.