138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna þeim orðum að það sé ekki sjálfgefið að stjórnsýslan sé öll á einum stað. Þegar við tölum um lýðræðið og lýðræðishalla kann vel að vera að hægt sé að skilgreina og tala um lýðræðishalla út frá kosningalöggjöf og hvernig atkvæði skiptast. En ég velti fyrir mér hvort það sé ekki í raun óhætt að tala líka um ákveðinn lýðræðishalla þegar stór hluti þjóðarinnar hefur takmarkaðan eða verri aðgang að t.d. sjálfsagðri þjónustu eða ákveðnum hlutum sem eru taldir sjálfsagðir í þessum samfélögum sem við búum í. Er það þá ekki lýðræðishalli sem ber að jafna? Áratugum saman hefur t.d., svo ég nefni eitt dæmi, fólk úti á landi barist fyrir því að fá jöfnun á flutningskostnaði við illan leik og ekkert gengið. Er það ekki lýðræðishalli þá í raun að sá hluti þjóðarinnar sem framleiðir matvæli fyrir landið í dag eða stendur í því að skapa verðmæti til útflutnings í sjávarútvegi þurfi að greiða meira fyrir vöru og þjónustu en aðrir landsmenn? (Gripið fram í.) Þarf ekki að jafna þann lýðræðishalla sem þar er eða felst lýðræðishallinn í því að flytja alla á höfuðborgarsvæðið og jafna þá atkvæðamuninn þar?