138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Því fer fjarri að lýðræðishallinn felist í því að setja alla á suðvesturhornið, það veit hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson mætavel. Vissulega þarf að skoða marga þætti, m.a. það sem hv. þingmaður nefnir um flutningskostnað. Það þarf líka að velta fyrir sér mörgum öðrum þáttum sem við ættum kannski ekki að fara út í hér þar sem við erum að ræða þjóðaratkvæðagreiðslur. En menn verða að velta fyrir sér og hafa í huga þegar og ef þeir ræða lýðræðið og að gefa þjóðinni tækifæri til ýmissa hluta, óski hún eftir því, að menn verða að ræða þann þátt og hvort þeir eru tilbúnir til þess. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég æski þess að 2. gr. verði breytt og þjóðaratkvæðagreiðslum almennt verði háttað á sama hátt og þegar við göngum að kjöri forseta Íslands en ekki eins og kjöri er háttað til Alþingis. Það er meginpunktur minn í þessari umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég er að öllu jöfnu hlynnt vegna þess að það eykur lýðræði og ekki síður veitir það aðhald sem er kannski ekki síður mikilvægt.