138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og löngu er ljóst erum við hér með býsna stórt mál sem er frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er mjög mikilvægt að vandað sé til verka eins og við öll frumvörp og mál sem við þurfum að fara hér yfir í þinginu. Það verður að liggja ljóst fyrir hvert markmiðið með lagasetningunni yfirleitt er, ekki síst þeirri lagasetningu sem hér er. Í ljósi þess að a.m.k. eitt annað frumvarp hefur komið fram varðandi sama mál er ljóst að í þinginu er mikill áhugi á því að skerpt sé á lögum og reglum varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Á sama tíma eru þingmenn og þingheimur að ræða að það þurfi að skoða stjórnarskrá landsins.

Hér á eftir er til umræðu annað mál sem þessu tengist og varðar stjórnlagaþing. Mikið er búið að ræða um stjórnlagaþing í vetur því eins og við vitum að var það eitt af stóru málunum sem rætt var í framhaldi af þeim gjörningum og breytingum sem urðu hér í vetur. Í raun hefði ég talið að rétt hefði verið að blása sem fyrst til þings á þeim forsendum sem fyrst voru ræddar og það hefði þá farið yfir málefni sem þetta en því miður varð ekki úr því. Ég mun líklega koma hingað upp aftur undir næsta lið og ræða stjórnlagaþingið sérstaklega.

Í rauninni ber að fagna því að verið sé að reyna að skýra þessi mál varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur, það er nauðsynlegt. Varðandi einmitt þetta frumvarp hef ég þó áhyggjur af því að eins og fram hefur komið er verið að ræða um að slík þjóðaratkvæðagreiðsla verði eingöngu ráðgefandi. Þá kemur margt upp í hugann. Hvað þýðir það að vera með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu? Vitanlega geta þingmenn staðið hér og sagt að enginn þingmaður muni þora að fara gegn niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu. Það er þó alls ekki sjálfgefið því það má svo sem ímynda sér að jafnvel verði skipt um stóran hluta þingmanna áður en til framkvæmda kemur eða afgreiðslu í þinginu. Margt þarf að skoða varðandi framkvæmd á þessu og í raun hvað þetta þýðir. Ég tel að ef það á að fjalla um og taka upp þetta brýna mál eigi að taka það upp á þeim grunni að verið sé að ræða það til framtíðar og þá um bindandi atkvæðagreiðslur því ég held að mun skilvirkara sé að hafa þann hátt á.

Í 1. gr. kemur fram að Alþingi geti ákveðið o.s.frv. og þetta verði ráðgefandi. Í 2. gr. er talað um kosningarrétt og hverjir eiga kjörgengi eða geti tekið þátt í kosningunum. Síðan er í 3. gr. rætt um orðalag og ýmislegt annað. Með leyfi forseta ætla ég að vitna aðeins í þessa grein. Fyrsta setningin er:

„Í þingsályktun skv. 1. mgr. 1. gr. skal Alþingi, að fenginni umsögn landskjörstjórnar, jafnframt ákveða orðalag og framsetningu þeirrar spurningar sem lögð er fyrir kjósendur.“

Síðan kemur fram í sömu grein, með leyfi forseta:

„Alþingi getur ákveðið að spurningar og svarkostir á kjörseðli í atkvæðagreiðslu skv. 1. mgr. 1. gr. séu fleiri eða orðaðir með öðrum hætti.“

Mér þætti vænt um að fá að vita hvort þetta þýði að Alþingi geti sett fram spurningar eða orðalag sem er þá öðruvísi en kveðið er á um í fyrstu setningunni. Með öðrum orðum að Alþingi geti ákveðið að settar séu fram spurningar sem ekki hafi fengið umsögn landskjörstjórnar. Það kann að vera að ég sjái ekki alveg réttu hlutina í þessu en mér finnst að það þurfi að skýra þetta. Mér finnst eins og það sé hægt að túlka þetta þannig að Alþingi geti bætt við spurningum eða orðalagi sem landskjörstjórn hefur ekki farið yfir. Það væri því ágætt að fá upplýsingar um þetta.

Varðandi það sem fram kom í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að ákveðinn fjöldi landsmanna geti knúið fram eða samþykkt að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert ákveðið mál þá tek ég undir það. Ég held að nauðsynlegt sé að taka það skref líka ef við förum á þessa braut á annað borð, að bjóða upp á þann kost eða skoða mjög vandlega í vinnu nefndarinnar að ákveðinn hluti þjóðarinnar, hvort sem það eru 15% eða 20%, geti með undirskrift sinni óskað eftir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um eitthvert ákveðið mál.

Einnig má velta fyrir sér hvort það þýði að sífellt verði þjóðaratkvæðagreiðsla í gangi hér á Íslandi sem muni svo á endanum draga úr vilja fólks til þess að taka mark á slíku. Það er allt í lagi að velta aðeins vöngum yfir því. Einnig getur verið að hægt sé að skilyrða það með einhverjum hætti, þótt það kunni að virka öfugt í lýðræðisumræðunni sem hér fer fram, að við ákveðin tilefni og ákveðið málefni geti þessi 15–20% þjóðarinnar farið fram á slíka atkvæðagreiðslu. Hins vegar er nauðsynlegt að velta þessu fyrir sér.

Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir að nefna, því ég hafði einmitt rekið augun í þetta líka, að það fara ekki saman texti í þessu frumvarpi, sú hugsun sem þar er, og texti sem er að finna í samþykkt meiri hluta Alþingis varðandi aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Auðvitað er mjög freistandi að hugsa sem svo að allt hangi þetta nú saman, að asinn og kapphlaupið við að komast í faðm Evrópusambandsins sé svo mikið að nú þurfi að vera með einhvers konar þjóðaratkvæðagreiðslufyrirbæri sem auðveldi mönnum að hlaupa eða ganga þá leið. Ég vil nú eiginlega frekar segja „hlaupa“ varðandi aðild að Evrópusambandinu.

Er frumvarp þetta afleiðing eða afkvæmi þess að við erum farin á þá braut að sækja um aðild? Það er mjög hugsanlegt því samkvæmt meirihlutaálitinu og því sem Alþingi í raun samþykkti, ef litið er svo á að greinargerðin með ályktuninni sé lögskýringargagn eða skýringargagn sem þingið hafi samþykkt, vantar klárlega vettvanginn til þess að bera væntanlegan aðildarsamning undir þjóðina. Því má velta fyrir sér hvort þetta frumvarp sé beinlínis komið í framhaldi af því en ekki af eintómri ást á lýðræðinu eða því að taka á þessu málefni. Að mörgu leyti má segja að frumvarp Hreyfingarinnar eða fulltrúa hennar og hv. þm. Þráins Bertelssonar gangi lengra en þetta frumvarp.

Nú má velta því fyrir sér hvort það sé ástæða til þess að hraða þessari umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslur í gegnum þingið fyrir áramót, ef það verður vilji þingsins, vegna þess að aðildarumsókn að Evrópusambandinu virðist vera í mjög hröðum farvegi. Vitanlega er óþolandi ef farið er með mál með þessum hætti án þess að þau séu skýrð og tengd saman með skýrum hætti. Það hefði verið hreinlegra.

Það kann að vera að í þessu frumvarpi sé ekki þetta ákvæði um að ákveðinn fjöldi þjóðarinnar geti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla um ákveðið mál fari fram. Það kann að vera að það sé vegna ótta við að þjóðin muni fella aðildarsamninginn eða þessa umsókn. Í rauninni væri mjög freistandi í dag fyrir þjóðina að sýna vilja sinn í verki, sýna andúð sína á þessum þjóðum sem hafa nú pínt og kúgað Ísland til þess að taka á sig greiðslur sem þeim ber ekki að gera samkvæmt reglugerðarbákni Evrópusambandsins, láta í sér heyra og krefjast þess að umsóknin verði dregin til baka, því það er ljóst að þessar þjóðir, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri hafa traðkað alvarlega á sjálfstæði Íslands. Ég fagna því að svo virðist sem Íslendingar hafi áttað sig á þessu og fleiri og fleiri séu andsnúnir þessu fyrirbæri.

Frumvarp þetta fer væntanlega til nefndar og fær þá vonandi vandaða og nauðsynlega yfirferð. Ég held að þau frumvörp sem hér hafa verið lögð fram á þinginu hljóti að vera tekin samhliða. Ég vona að það verði skoðað mjög vandlega að ef frumvarpið á að fara í gegnum þingið verði skoðað að hluti þjóðarinnar geti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla um ákveðið mál fari fram. Ég legg eindregið til að það verði skoðað vandlega hvort þá sé betra heima setið en af stað farið með frumvarp sem þetta í stað þess að ganga alla leið og gera atkvæðagreiðsluna bindandi.