138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[16:54]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka góða umræðu og að mörgu leyti skemmtilega um þetta ágæta og mjög svo mikilvæga mál, þjóðaratkvæðagreiðslur. Að vísu hefur umræðan farið kannski full vítt og breitt en það er annað mál. Um frumvarpið vil ég í grundvallaratriðum segja að þetta er flott og það er löngu orðið tímabært að við Íslendingar lögfestum sérstaklega hvernig við ætlum að standa að þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er gott mál að hæstv. forsætisráðherra leggur það nú fram aftur og ég vonast til þess að það verði samþykkt enda virðist ríkja þverpólitísk samstaða um meginefni frumvarpsins. Búið er að ræða þetta mál fyrir löngu, t.d. í síðustu stjórnarskrárnefnd, og allir bíða spenntir eftir að þetta gerist.

Að vísu hefði verið hægt að stofna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál samkvæmt stjórnskipulegri hefð. Við höfum áður í sögu Íslands haldið þjóðaratkvæðagreiðslur og þannig hefði t.d. vel verið hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2004 eftir synjun forseta lýðveldisins þannig að þjóðin hefði þar fengið að segja sitt álit sem Alþingi í raun svínaði á henni með. Látum það liggja milli hluta.

Nokkuð sem ég tel mikilvægt að verði tekið vel til umræðu í allsherjarnefnd er það atriði sem mikið hefur verið rætt í þessari umræðu, að minni hluti þings eða ákveðið hlutfall þjóðar geti fengið fram þjóðaratkvæðagreiðslu með sérstakri ósk þess efnis. Ég styð þessa hugmynd eindregið og hef verið þeirrar skoðunar allt frá því ég fór að hugsa mikið um þessi mál einmitt þetta áðurnefnda sumar 2004. Ég hlakka til að heyra hvað allsherjarnefnd hefur að segja um það. Ég held að þetta muni styrkja bæði lýðræðið sem og þingið, það geti stuðlað að aukinni samstarfsmenningu innan þingsins sem ég tel ekki vanþörf á enda leiður ávani á Íslandi að skipta alltaf upp í stjórnarmeirihluta og -minnihluta. Ég vil samt auðvitað taka undir með hæstv. forsætisráðherra að Alþingi getur ekki sett fram þingsályktun um þetta með stuðningi einungis minni hluta þingmanna. Það þyrfti að finna nýtt form á það en ég tel að það sé bara praktískt úrlausnarefni.

Þá vil ég líka taka fram að ég er ekki viss um að hlutfallið 10% sem þingmenn Hreyfingarinnar hafa stungið upp á í sínu frumvarpi sé endilega ákjósanlegast en tek fram að ég hef ekki myndað mér skoðun á því nákvæmlega hvert hlutfallið eigi að vera. Ég tel að þetta þurfi að skoða vel en ítreka að ég styð grunnhugmyndina.

Síðan er eitt atriði í viðbót sem hv. þm. Þór Saari talaði um áðan, og það er einmitt heppilegt að hann skuli þá ganga inn í salinn þegar ég kýs að svara þessu en því miður var ég á skrifstofu minni þegar þetta kom til tals. Það er hvort það dragi úr mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslu að kosið sé meðfram öðrum kosningum eins og lagt er til í frumvarpinu. Þá erum við að tala um m.a. sveitarstjórnar-, alþingis- eða forsetakosningar, þ.e. þegar verið er að halda kosningar á annað borð með tilheyrandi tilkostnaði geti fólk um leið greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið málefni. Ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þm. Þór Saari að það geti dregið úr mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslunnar ef þessi leið verður farin og vil benda á í því samhengi að þátttaka í alþingiskosningum á Íslandi er gríðarlega góð. Þar með væri í rauninni hægt að varpa skýrara ljósi á vilja þjóðarinnar ef kosið væri meðfram alþingiskosningum. Auðvitað hlyti það að koma til móts við það sjónarmið að málefnið fái athygli fyrir utan allt það havarí sem vissulega fylgir þingkosningum. Ég tel að það liggi til grundvallar hjá hv. þingmanni.

Ég vil ítreka að þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslum á ýmsum stöðum í heiminum er mismunandi góð. T.d. hafa Danir átt í miklum vandkvæðum með að breyta sinni stjórnarskrá vegna þess að það fæst einfaldlega ekki næg þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu til að það sé hægt. Þetta er eitt af því sem allsherjarnefnd kemur til með að ræða og við síðan áfram hérna í þinginu.

Að lokum vil ég koma aðeins inn á þá umræðu sem hér hefur farið fram um Evrópusambandið og þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er alveg sammála því sem flestir hér virðast vera sammála um, að það hefði verið betra að ná að breyta stjórnarskrá lýðveldisins fyrir síðasta þingrof. Ég ítreka fyrir mína hönd og míns flokks, Samfylkingarinnar, að þjóðin verður ekki sett inn í Evrópusambandið sé hún búin að hafna því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er alveg kýrskýrt af minni hálfu og forsvarsmanna Samfylkingarinnar. Hins vegar finnst mér svolítið áhugavert að velta upp þeirri spurningu hvort hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sem nokkuð hefur haft sig í frammi í þessari umræðu — og nú væri að sjálfsögðu frábært ef hann mundi ganga í salinn eins og hv. þm. Þór Saari gerði einmitt þegar ég hóf að gera athugasemdir við hans málflutning. Úr því að það gerist ekki verð ég að varpa þessari spurningu út í tómið og vonast til þess að Ásmundur Einar svari henni við tækifæri. Hann hefur lagt á það ríka áherslu að hann muni aldrei ýta á græna takkann hvað varðar mögulega inngöngu Íslands í Evrópusambandið og hann hefur einnig lýst yfir eindregnum stuðningi við þann grundvöll sem liggur að baki frumvarpinu um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem er að sjálfsögðu sá að þjóðin eigi að fá að ráða í mikilvægum málefnum eins og aðild að Evrópusambandinu er. Segjum sem svo að þjóðin hafi sagt já við aðildarsamningi að Evrópusambandinu, mundi þá hv. þm. Ásmundur Einar Daðason standa í vegi fyrir þeim vilja þjóðarinnar? Ég tel að þeirri spurningu sé ekki svarað en ítreka aftur að minn flokkur, Samfylkingin, mun sannarlega virða vilja þjóðarinnar í þessum efnum.