138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[17:01]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar bara að tæpa á þremur atriðum í ræðu hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur. Eitt af þeim var varðandi 10%-regluna um undirskriftir kosningarbærra manna til að geta knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert tiltekið mál. Á flestum stöðum sem við skoðuðum er þessi tala 7–8% vegna þess einfaldlega að þegar menn eru komnir upp í hærri tölu er umfang undirskriftasöfnunar orðið það mikið að það er nánast marklaust orðið að hafa svona ákvæði. Við fórum af stað með 7% fyrst, en þegar við ræddum þetta mikið við þingmenn rákum við okkur á það að þeir fóru strax allir að reikna út hversu margar undirskriftir þyrfti. 7% af 185.000 var svolítið flókin tala þannig að við hækkuðum hana upp í 10% til að auðvelda þingmönnum hugsunina í þessu máli, en höfðum svo alltaf í huga að hún yrði lækkuð kannski aftur í 7% eða 8% í allsherjarnefnd, ef hægt verður. Það að safna 18.500 undirskriftum út af einhverju tilteknu máli er gríðarleg vinna og í mörgum tilvikum óvinnandi vegur og þess vegna þarf þessi tala að vera nægilega lág. Menn mega ekki líta þannig á að þó að það sé auðvelt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna eða kannski ekki mjög erfitt eru þjóðaratkvæðagreiðslur hið besta mál. Því fleiri sem þær eru um tiltekin mál má kannski segja því betra því að þær snúast um vilja þjóðarinnar.

Hvað varðar sératkvæðagreiðslu um málefni, sem sagt ekki samhliða öðrum atkvæðagreiðslum, snýr það bæði að því að vernda það málefni sem þjóðaratkvæði er greitt um og eins að vernda sveitarstjórnar- eða alþingiskosningarnar svo málin skarist ekki og orðræðan og áróðurinn drepi ekki hvort öðru á dreif.