138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem lagt er fram í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Frumvarpið var lagt fram á 137. löggjafarþingi án þess að mælt væri fyrir því og er nú lagt fram að nýju án breytinga.

Frumvarpið felur í sér það nýmæli að sett verði á fót hér á landi stjórnlagaþing sem falið verði að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Frumvarpið var unnið í samráði við fulltrúa allra þingflokka.

Forsaga smíði þessa frumvarps er sú að á þarsíðasta löggjafarþingi lögðu þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni og því fylgdu drög að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing. Frumvarpið til stjórnarskipunarlaga varð ekki útrætt. Þar sem ekki varð af þeim stjórnarskrárbreytingum sem þar voru ráðgerðar um stofnun stjórnlagaþings og að frumvarp þess efnis yrði lagt undir þjóðaratkvæði með bindandi niðurstöðu, er lagt til í frumvarpi þessu að stjórnlagaþingið verði ráðgefandi enda skortir heimild í stjórnarskrána til að fela stjórnlagaþingi bindandi ákvörðunarvald.

Til þess að draga úr kostnaði er nú einnig lagt til að umfang stjórnlagaþingsins verði nokkuð minna en áður var stefnt að og starfstími þess styttri. Þá er ráðgert að starf þingsins verði vandlega undirbúið áður en það tekur til starfa svo starfstími þess nýtist sem best og skilvirkni í vinnu verði sem mest.

Veigamesta efnislega breytingin frá tillögum þeim sem lagðar voru fram á 136. löggjafarþingi felst þó í því að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaþingi er ætlað að samþykkja verður nú sent Alþingi til áframhaldandi meðferðar án frekari aðkomu stjórnlagaþingsins.

Samþykki Alþingi frumvarpið, eftir atvikum með breytingum, verður þá í kjölfarið að rjúfa þing skv. 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar og láta fara fram almennar kosningar. Samþykki Alþingi frumvarpið óbreytt að því loknu teljast stjórnarskrárbreytingarnar samþykktar. Í því sambandi kemur til álita að fresta stjórnlagaþinginu og þar með kosningu til þess fram til ársins 2011 þannig að störf stjórnlagaþingsins og umfjöllun Alþingis í kjölfarið á frumvarpi til nýrra stjórnarskipunarlaga fari betur saman við kosningar til Alþingis sem ætla má að verði vorið 2013. Er rétt að Alþingi taki afstöðu til þessa við umfjöllun sína um frumvarpið.

Segja má að uppbygging og kaflaskipan lýðveldisstjórnarskrárinnar frá 1944 sé í meginatriðum sambærileg fyrstu stjórnarskrá íslenska ríkisins um hin sérstaklegu málefni Íslands frá 1874, sem var sett einhliða af Kristjáni IX. Danakonungi.

Stjórnarskrárnefndir hafa ítrekað verið skipaðar og starfað eins og ítarlega er rakið í greinargerð með frumvarpi þessu og hvet ég háttvirta alþingismenn til þess að kynna sér athyglisverða sögu þeirra.

Það er hins vegar staðreynd að þeirri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem fara átti fram eftir að lýðveldisstjórnarskráin var sett 1944 hefur í raun aldrei lokið. Einstakar breytingar hafa hins vegar verið gerðar. Sumar þeirra hafa verið mjög afmarkaðar, eins og breyting á kosningaaldri árið 1968 en aðrar víðtækari, eins og breytingar á starfsháttum Alþingis og fleira 1991 og endurskoðaður mannréttindakafli 1995.

Þeir kaflar stjórnarskrárinnar sem hafa verið endurskoðaðir rækilega eru III. kafli um þingkosningar, IV. kafli um störf Alþingis og VII. kafli um mannréttindi. Öðrum köflum hefur minna verið breytt. Þannig hefur I. kafla aldrei verið breytt, II. kafla breytt í nokkrum atriðum árið 1991, mest til að taka mið af afnámi deildaskiptingar Alþingis, V. kafla um dómsvaldið hefur nær ekkert verið breytt en ein af þremur greinum VI. kafla um kirkju og trúfrelsi var endurskoðuð

Hæstv. forseti. Ég tel rétt að fjalla hér lítillega um hugtakið stjórnlagaþing. Það hugtak er ekki fastmótað en eins og nafnið gefur til kynna hefur slíkt þing það hlutverk að semja ný stjórnlög eða reglur um stjórnskipun ríkis eða breyta þeim sem fyrir eru og þar sitja venjulega þjóðkjörnir fulltrúar, oftast af þjóðþingum. Slík þing hafa verið haldin víða um heim á ýmsum tímum sögunnar og marka gjarnan upphaf að stofnun nýrra ríkja eða nýjum stjórnarháttum í ríki í kjölfar stríðsátaka, byltinga eða niðurbrots í þjóðfélagsskipan og stjórnlagakreppu sem myndast hefur í kjölfarið.

Með stjórnlagaþingi er undirstrikað að í lýðræðisþjóðfélagi spretti allt vald frá þjóðinni og því skuli stjórnlög sett af fulltrúum fólksins. Þessum þjóðkjörnu fulltrúum er falið að setja þær grundvallarreglur sem gilda um æðstu stjórn og skipulag ríkisins, verkefni handhafa ríkisvaldsins, verkaskiptingu þeirra og valdmörk.

Tímans vegna mun ég ekki fara nánar út í sögu stjórnlagaþinga en ítarlega er gerð grein fyrir henni í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu. Eins og áður hefur komið fram hafa stjórnlagaþing ekki áður verið sett á fót hér á landi. Þó má segja að þjóðfundurinn sem fram fór í Reykjavík árið 1851 hafi verið ígildi stjórnlagaþings hér á landi.

Um skipulag og starfshætti stjórnlagaþinga og niðurstöður þeirra hafa gilt mjög fjölbreyttar reglur eftir því hvaða ríki á í hlut. Aðalreglan er að fulltrúar á stjórnlagaþingi séu þjóðkjörnir, t.d. sem þingmenn á þjóðþingum, en ekki sé kjörið beint á stjórnlagaþingið. Auk þess veljast þangað fulltrúar ríkja eða fylkja þegar um sambandsríki er að ræða. Þá er ekki einhlítt hver eru bindandi áhrif samþykkta stjórnlagaþings og jafnframt er misjafnt hvort niðurstaða stjórnlagaþinga um nýja stjórnarskrá er borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eitt eiga flest stjórnlagaþing þó sameiginlegt. Þau eru ekki varanlegar stofnanir en hlutverk þeirra takmarkast við að setja stjórnlög eða stjórnarskrá í eitt skipti og er oft markaður til þess ákveðinn tími.

Virðulegi forseti. Hugmyndin um stjórnlagaþing hér á landi er ekki ný af nálinni. Við undirbúning lýðveldisstofnunarinnar kom til umræðu á Alþingi að kalla saman stjórnlagaþing. Var því hreyft snemma árið 1941 af Jónasi Jónassyni alþingismanni að eðlilegt væri að saman yrði kvaddur sérstakur þjóðfundur til ákvörðunar um lýðveldisstofnun hér á land og hugmyndin var mjög rækilega rædd enda þótt ekki yrði af þessu.

Frá lýðveldisstofnun hefur frumvarp til laga um stjórnlagaþing þrisvar sinnum verið lagt fram. Fyrst af Páli Zóphóníassyni, þingmanni Framsóknarflokksins, árið 1948 og síðan af þeirri sem hér stendur árið 1995. Á 136. löggjafarþingi lagði Siv Friðleifsdóttir, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, fram frumvarp um stjórnlagaþing. Og eins og lýst var í inngangi hér að framan var einnig lagt fram á 136. löggjafarþingi frumvarp þingmanna fjögurra stjórnmálaflokka um stofnun stjórnlagaþings, sem er helsta fyrirmynd þessa frumvarps.

Ástæður þess að hugmyndir um stjórnlagaþing hafa verið endurvaktar nú má einkum rekja til víðtækrar þjóðfélagsumræðu um nauðsyn þess að endurskoða grundvöll íslenska stjórnkerfisins í kjölfar bankahrunsins síðastliðið haust. Kröfur hafa komið fram um að endurskoðaðar verði ýmsar grundvallarreglur í íslensku stjórnskipulagi, þar á meðal þær sem lúta að skipulagi löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og aðskilnaði milli þessara tveggja valdþátta, hvernig er háttað reglum um ábyrgð handhafa framkvæmdarvaldsins og eftirliti með starfi stjórnvalda og um möguleika þjóðarinnar á því að taka beinan þátt í ákvörðunum með þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þeirri umræðu hefur sjónum verið beint að stjórnarskrá lýðveldisins, setningarhætti hennar og þeirri staðreynd að raunveruleg lýðræðisleg umræða hefur aldrei farið fram hér á landi um það hvernig beri að haga þessum málum á Alþingi Íslendinga. Enn er byggt á því skipulagi sem var við lýði í konungsríkinu Íslandi árið 1874 sem Danakonungur ákvað, skipulagi sem endurspeglar engan veginn þann raunveruleika sem nú er í íslenskum stjórnmálum.

Þetta, hæstv. forseti, finnst mér mjög merkilegt. Þessi atriði skipta máli og þau skipta máli þegar við ræðum um endurreisn þjóðfélagsins og siðferðislegra gilda innan stjórnkerfisins hér á landi.

Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir er lagt fram þar sem stjórnmálaflokkunum hefur ekki tekist að ná samstöðu um nauðsynlegar breytingar á núgildandi stjórnarskrá, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Ég mun nú reifa helstu efnisatriði frumvarpsins en vísa að öðru leyti til frekari skýringa í greinargerð.

Í frumvarpinu er ráðgert að stjórnlagaþing hafi tímabundið og afmarkað hlutverk sem er að endurskoða og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Gert er ráð fyrir það þingið taki m.a. sérstaklega til skoðunar efnisatriði sem staðið hafa nær óbreytt allt frá setningu stjórnarskrárinnar. Þingið getur þó jafnframt tekið til endurskoðunar hvað eina annað sem það kýs eða lagt til að bætt verði við stjórnarskrána nýjum ákvæðum og köflum sem ekki hafa staðið þar til þessa.

Ekki er hins vegar gert ráð fyrir því að stjórnlagaþing verði framvegis hin venjulega aðferð til að endurskoða stjórnarskrána. Þinginu er markaður tími til þess að ljúka störfum sínum í átta mánuði, frá 17. júní 2010 til 17. febrúar 2011, en Alþingi getur framlengt starfstímann um allt að þrjá mánuði. Eins og áður segir kemur til álita að fresta þessu þangað til síðar á kjörtímabilinu. Tillögum þingsins er ætlað að vera ráðgefandi fyrir Alþingi og skal frumvarp sem stjórnlagaþing samþykkir sent Alþingi til meðferðar.

Í tillögum frumvarpsins endurspeglast það markmið með setningu stjórnlagaþings að þjóðkjörnir fulltrúar íslensku þjóðarinnar setji stjórnlög ríkisins og þar með er undirstrikað að allt ríkisvald spretti frá þjóðinni. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fulltrúar á stjórnlagaþing verði kosnir persónukosningu samkvæmt ítarlegum reglum varðandi framkvæmd persónukjörsins þar sem stuðlað verði að jöfnu hlutfalli kynjanna eins og kostur er í hópi þingfulltrúanna.

Þá eru í frumvarpinu sérreglur um kjörgengi fulltrúa á þingið en ráðgert er að sömu skilyrði gildi um það og varðandi kjörgengi til Alþingis, með þeirri undantekningu þó að forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og ráðherrar séu ekki kjörgengir. Með þessu er stefnt að því tryggja að þingið vinni sjálfstætt að tillögum sínum gagnvart Alþingi og öðrum handhöfum ríkisvalds og án beinnar aðkomu fulltrúa þessara handhafa. Ástæða þess að efnt er til stjórnlagaþingsins sem starfar þannig við hlið Alþingis er einmitt að skapa nýjan vettvang fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar í ákveðinni fjarlægð frá stjórnmálaflokkum og fulltrúum þeirra á Alþingi.

Til þess að nýta starfstíma og skilvirkni þingsins sem best og draga úr kostnaði er nánar afmarkað í frumvarpinu á hvaða tímabilum þingið kemur saman og heldur fundi og mælt er fyrir um störf nefnda þingsins þess á milli. Lagt er til að á starfstíma þingsins séu þrjú starfstímabil:

Það fyrsta verði nýtt til að kjósa nefndir þingsins og skipuleggja störf þeirra og verkáætlun fyrir þingið, annað tímabilið verði nýtt til að ræða framkomnar tillögur nefnda og þriðja tímabilið til þess að taka til meðferðar og samþykkja frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

Er forsætisnefnd og þremur starfsnefndum sem kjörnar eru af þinginu í upphafi starfstímans falið lykilhlutverk í starfsemi þess og stjórnun og mótun tillagna.

Í ljósi þess mikilvæga hlutverks stjórnlagaþings að vera vettvangur þjóðkjörinna fulltrúa með það afmarkaða verkefni að endurskoða stjórnlög ríkisins er gert ráð fyrir því að fram fari víðtæk kynning á starfsemi þess í samfélaginu.

Stjórnlagaþing á markvisst að lýsa eftir tillögum og erindum frá einstaklingum, hagsmunasamtökum, félögum og öðrum og taka þau til meðferðar og umræðu og þingfundir fara fram í heyranda hljóði og eru opnir öllum.

Stjórnlagaþingi er markaður fremur stuttur tími, eða átta mánuðir, til þess að ljúka störfum sínum með möguleika á framlengingu í allt að þrjá mánuði ef Alþingi ákveður svo, eins og áður hefur komið fram. Í bráðabirgðaákvæði er því mælt fyrir um að forsætisráðherra skuli skipa undirbúningsnefnd sem taki til starfa þegar við gildistöku laganna til að undirbúa stofnun og starfsemi þingsins og að nefndin skuli ráða framkvæmdastjóra.

Meðal mikilvægustu verkefna nefndarinnar er að semja drög að starfsreglum fyrir þingið sem forsætisráðherra skal svo gefa út áður en þingið kemur saman. Nefndinni er ætlað að setja af stað víðtæka kynningu á starfsemi stjórnlagaþingsins og fyrirhuguðu verkefni þess, m.a. að setja upp vefsíðu, útvega húsnæði og undirbúa ráðningu starfsmanna.

Hæstv. forseti. Ég mun nú fara yfir þau atriði í frumvarpinu sem ég hef ekki getið um í almennri umfjöllun hér að framan.

Í 1. gr. frumvarpsins er ráðgert að forseti Íslands boði til stjórnlagaþings. Forsætisráðherra skal eiga atbeina að því ásamt forseta að boða til þingsins og skal hann bera upp fyrir forseta tillögu um að þingið verði kvatt saman í síðasta lagi 17. júní 2010. Ekki er gert ráð fyrir öðru hlutverki forseta Íslands en að setja stjórnlagaþing og stýra kjöri forseta þingsins. Eins og ég hef þegar farið yfir er stjórnlagaþinginu ætlað að vera ráðgefandi. Ókleift er að óbreyttri stjórnarskrá að veita stjórnlagaþingi lagasetningarvald með bindandi niðurstöðu en slíkt vald er eingöngu á hendi Alþingis skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Af sömu ástæðu getur stjórnlagaþing ekki heldur skuldbundið Alþingi með niðurstöðu sinni til þess að breyta stjórnarskránni. Verður frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaþing samþykkir því sent Alþingi til áframhaldandi meðferðar samkvæmt hefðbundnum reglum.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um fjölda þjóðkjörinna og atkvæðisbærra fulltrúa á stjórnlagaþinginu. Eftir því sem fulltrúar eru fleiri er líklegra að breiðari eða fjölbreyttari hópur manna sitji á þinginu en jafnframt geta störf þess þó orðið þyngri í vöfum. Hér er lagt til að minnst 25 og mest 31 fulltrúi sitji á þinginu. Fulltrúar skulu vera þjóðkjörnir og kjörnir persónukjöri. Með þessu er undirstrikað að þeim er ætlað að hafa beint umboð frá þjóðinni. Með því að fulltrúar eru persónukjörnir er einnig stefnt að því að þeir séu ekki fulltrúar stjórnmálaflokka heldur bjóði sig fram sem einstaklingar. Þó verður vitaskuld ekki hægt að útiloka að frambjóðendur tengi framboð sitt ákveðnum stjórnmálastefnum eða njóti yfirlýsts stuðnings tiltekinna stjórnmálaflokka.

Í 3. gr. frumvarpsins eru taldir þeir þættir sem stjórnlagaþingi er einkum ætlað að taka til umfjöllunar. Er hér m.a. litið til þeirra hluta stjórnarskrárinnar sem standa lítt breyttir allt frá árinu 1874. Vísað er til atriða sem nú er fjallað um í I. kafla stjórnarskrárinnar en þar eru tvær fyrstu greinar stjórnarskrárinnar sem lúta að lýðveldisskipan og þrískiptingu ríkisvaldsins. Álitaefni er hvort ekki sé rétt að festa skýrum stöfum í inngangskaflann önnur mikilvæg atriði sem eru hornsteinar íslenskrar stjórnskipunar, t.d. að allt vald sé sprottið frá þjóðinni og hver séu markmið að baki ríkisvaldi, um lýðræðisfyrirkomulagið, skyldu til að tryggja mannréttindi og réttarríki, yfirráðasvæði íslenska ríkisins og nokkur einkenni íslensku þjóðarinnar á borð við íslenskt tungumál og annan menningararf og að vernda beri verðmæti þjóðarinnar sem fólgin eru í náttúruauðlindum. Í flestum nýrri stjórnarskrám Evrópuríkja er að finna inngangskafla þar sem undirstöðum ríkis og þjóðar og slíkum grunnhugtökum er lýst þótt framsetning og efni slíkra ákvæða sé afar breytilegt á milli ríkja.

Þá er vísað til atriða sem fjallað er um í II. kafla stjórnarskrárinnar sem er einn veigamesti kafli hennar. Ákvæði kaflans fjalla að mestu um framkvæmdarvaldið og tengsl þess við löggjafarvaldið, svo og hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins sem annars handhafa framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Litlar breytingar voru gerðar á þessum ákvæðum við setningu lýðveldisstjórnarskrárinnar aðrar en þær að felld voru út ákvæði um konung og innleidd ákvæði um forseta. Hlutverk forseta í stjórnskipun landsins var þannig að flestu leyti mjög sambærilegt við hlutverk konungs áður, með nokkrum undantekningum þó.

Eitt helsta verkefni stjórnarskrárnefndar sem skipuð var árið 2005 var að endurskoða II. kafla en engin ákveðin tillaga kom fram um efnið í starfi nefndarinnar. Orðalag ákvæða kaflans er óskýrt um margt og lýsir ekki nægilega hver er verkaskipting á milli forseta og ríkisstjórnar við meðferð framkvæmdarvalds. Þá þyrfti að skýra hlutverk og vald ríkisstjórnar, stöðu starfsstjórna, þingrofsréttinn og hvernig standa beri að stjórnarmyndun en um þetta skortir annaðhvort ákvæði í stjórnarskrána nú eða óvissa er um hvernig beri að túlka þau sem fyrir eru. Þá er vert að huga að stjórnarskrárákvæðum um samskipti Íslands við önnur ríki og þátttöku ríkisins í samvinnu innan alþjóðastofnana.

Við endurskoðun þeirra atriða sem lýst er í 2. og 3. tölul. 1. mgr. þarf væntanlega að taka afstöðu til ýmissa grundvallarspurninga um valdmörk löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Þar má nefna álitaefni um hvort skilja eigi með öllu á milli þessara tveggja valdþátta og jafnvel kjósa framkvæmdarvaldið beint eða hvort styrkja eigi það fyrirkomulag sem nú er við lýði, einkum með því að festa þingræðisregluna skýrum stöfum í stjórnarskrá, en fram til þessa hefur þingræðið byggst á stjórnskipunarvenju. Þótt þingræði sé þannig við lýði þarf að huga að úrræðum til að raunveruleg völd Alþingis, sem æðsta handhafa ríkisvalds, séu nægilega tryggð. Þannig þyrfti að huga að skilvirkari úrræðum til að hafa eftirlit með ríkisstjórn og veita henni nauðsynlegt aðhald. Eins er vert að huga að því hvort tryggja beri mikilvægustu eftirlitsstofnun á vegum Alþingis, umboðsmanni Alþingis, ákveðinn sess í stjórnarskránni og bæta við skýrari heimildum en nú eru til þess að þingið skipi rannsóknarnefndir til að rannsaka tiltekin mál.

Í 4. tölul. 1. mgr. er lagt til að meðal umfjöllunarefna verði atriði sem lúta að sjálfstæði dómstóla og eftirliti þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds. Hefur V. kafla stjórnarskrárinnar um dómstóla lítið sem ekkert verið breytt frá árinu 1874 og eru ákvæði hans afar fábreytt. Þar er t.d. hvorki nefnt að Hæstiréttur sé æðsti dómstóll landsins né fjallað um heimildir dómstóla til að víkja lögum til hliðar stríði þau gegn stjórnarskrá. Auk þess skortir ákvæði um hvernig megi tryggja að fagleg sjónarmið ráði við skipun dómara

Síðustu töluliðir ákvæðisins lúta að málum tengdum kosningum, kjördæmaskipan og þátttöku almennings í lýðræði. Æskilegt er að stjórnlagaþingið kanni leiðir til þess að gera lýðræðisumbætur í þá átt að auka lýðræði svo sem hvernig megi jafna atkvæðisrétt landsmanna í þingkosningum og setja reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrána.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að kosning til stjórnlagaþings fari fram samhliða kosningum til sveitarstjórna vorið 2010. Fyrir liggur að kosningar til sveitarstjórna fara fram laugardaginn 29. maí 2010. Þó kemur til álita, eins og áður er fram komið að fresta þinginu, og þar með kosningu til þess fram til ársins 2011 þannig að störf þingsins og umfjöllun Alþingis í kjölfarið á frumvarpi til nýrra stjórnarskipunarlaga fari saman við kosningar til Alþingis sem ætla má að verði vorið 2013. Er rétt að Alþingi taki afstöðu til þessa við umfjöllun sína um frumvarpið.

Í 8. gr. er mælt fyrir um það hvernig beri að standa að framboðum til stjórnlagaþings og um tímafresti í þeim efnum. Hér er um ýmis nýmæli að ræða í ljósi þess að þessi aðferð, þ.e. hreint persónukjör án listaframboða í almennum kosningum á landsvísu, hefur ekki verið reynt hér á landi fyrr. Markmið ákvæðisins er að reyna að tryggja eins og unnt er að vandað verði til framboða án þess þó að skilyrði, t.d. um fjölda meðmælenda, verði svo ströng eða viðurhlutamikil að það reynist almennum borgurum illmögulegt að uppfylla þau eða letji menn að bjóða sig fram.

Sérstaða framboða til stjórnlagaþings kemur einkum fram í 2. mgr. greinarinnar. Samkvæmt ákvæðinu skulu fylgja hverju framboði samþykki frambjóðanda og nöfn, minnst 30 og mest 50 meðmælenda, sem skulu fullnægja skilyrðum kosningarréttar til Alþingis. Þá er ráðgert að framboði skuli fylgja skrifleg yfirlýsing frá hverjum meðmælanda sem staðfest hefur verið af tveimur vottum á eyðublaði sem landskjörstjórn skal útbúa sérstaklega. Nöfn meðmælenda, staða þeirra og sveitarfélög þar sem þeir eru búsettir skulu birt ásamt nöfnum frambjóðenda í helstu fjölmiðlum og Lögbirtingablaði. Með þessari tilhögun við að afla meðmælenda er stefnt að því að gera ekki kröfu um of marga meðmælendur sem frambjóðendum gæti reynst örðugt að útvega, en jafnframt að meðmælendur gefi opinberlega til kynna að þeir styðji frambjóðanda til framboðsins. Þetta þýðir að sá hópur manna sem stendur að baki frambjóðandanum getur endurspeglað þau sjónarmið eða skoðanir sem frambjóðandinn stendur fyrir og lýst þannig í verki stuðningi sínum. Við þessi skilyrði er ólíklegt að menn mæli með frambjóðanda án þess að íhuga vel hvort þeir telji hann vel fallinn til þess verkefnis að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar og þannig verður stuðlað að vandaðri framboðum. Að öðru leyti vísa ég til mjög ítarlegrar greinargerðar með frumvarpinu varðandi þetta atriði.

Mikilvægt er að þjóðin öll verði hvött til að kynna sér hverjir frambjóðendur til stjórnlagaþings eru með góðum fyrirvara og að kynningarefni sé gert aðgengilegt öllum. Er kveðið á um aðferðir til þess að ná því markmiði í 9. gr. frumvarpsins. Eðlilegt þykir að ákveðin takmörk séu sett við því hversu mikið frambjóðendum er heimilt að þiggja af styrkjum og framlögum frá öðrum og er því lagt til í 2. mgr. greinarinnar að ákvæði laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra gildi um framlög eða styrki til frambjóðenda eftir því sem við á.

Í 11. gr. frumvarpsins er lýst þeirri aðferð sem kjósandi skal viðhafa þegar persónukjörið fer fram. Samkvæmt þessu skal kjósa með þeim hætti að kjósandi forgangsraðar frambjóðendum. Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að öðru leyti að vísa til afar ítarlegrar umfjöllunar í greinargerð um þetta atriði og þessa aðferðafræði sem er nýjung fyrir íslenska kjósendur.

Í 16. gr. er fjallað um fyrstu skref í störfum stjórnlagaþings þegar það kemur saman og hlutverk forseta þingsins og forsætisnefndar. Forseti stjórnlagaþings er æðsti embættismaður þess og gegnir að mörgu leyti hliðstæðu hlutverki og forseti Alþingis. Forsætisnefndin sem hann stýrir hefur síðan yfirumsjón með skipulagi þingsins.

17. gr. frumvarpsins lýtur að verksviði og starfsháttum þriggja starfsnefnda sem starfa á vegum stjórnlagaþings, en í 16. gr. frumvarpsins er fjallað um kjör formanna nefndanna. Fyrsta nefndin fjallar um undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, dómstóla og réttarríkið, önnur nefndin um skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og hlutverk forseta lýðveldisins og hin þriðja um kosningamál og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Mikilvægt er að tryggja að hlutverk og starfsemi stjórnlagaþingsins verði kynnt með víðtækum hætti í þjóðfélaginu. Markmið stjórnlagaþings er að skapa nýjan og breiðan vettvang fyrir opna umræðu um stjórnlög ríkisins og hlutverk æðstu stofnana þess, og einnig að skapa vakningu og skoðanaskipti í samfélaginu um hvernig þeim málum verið best skipað. Þannig verður best náð fram beinum áhrifum þjóðarinnar á mótun stjórnlaga fyrir milligöngu þeirra þjóðkjörnu fulltrúa sem eru kjörnir sérstaklega á þingið til að vinna þetta verkefni. Um atriði sem ætlað er að ná þessu markmiði er kveðið í 20. gr. frumvarpsins.

Í 27. gr. er kveðið á um að stjórnlagaþing skuli eftir samþykkt frumvarps til nýrra stjórnarskipunarlaga senda það til Alþingis til meðferðar. Sé frumvarpið hins vegar ekki samþykkt skal engu að síður senda það Alþingi ásamt breytingartillögum sem fram komu við meðferð þess. Er það síðan undir ákvörðun Alþingis komið hvaða meðferð frumvarpið fær, þ.e. hvort frumvarpið verði lagt fram sem lagafrumvarp til stjórnarskipunarlaga á Alþingi og þá hvort það verði lagt fram óbreytt eða með breytingum. Í þessu sambandi má þó ætla að stjórnmálalegt vægi frumvarpsins gagnvart Alþingi verði meira eftir því sem breiðari samstaða næst um frumvarpið meðal þjóðkjörinna fulltrúa stjórnlagaþingsins.

Hæstv. forseti. Heildarkostnaður við stjórnlagaþing mun talsvert ráðast af því hversu langt þinghaldið verður. Í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er heildarkostnaður við 8 mánaða þinghald áætlaður 312 millj. króna og heildarkostnaður við 11 mánaða þinghald 392 millj. kr. Til viðbótar kostnaði við þinghaldið sjálft, undirbúning þess og rekstur má ætla að kostnaður landskjörstjórnar við að útbúa og dreifa kynningarefni um frambjóðendur og kosningarnar ásamt kostnaði ríkissjóðs við kosningu fulltrúa á stjórnlagaþingi, samhliða sveitarstjórnarkosningum geti orðið um 50 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið yfirferð yfir frumvarp til laga um stjórnlagaþing og legg til að því verði að lokinni umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar.