138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni þegar hann vísar til að almennt sé talið úti í þjóðfélaginu að stjórnlagaþing eigi að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Ég er hjartanlega sammála því. Það er alveg hárrétt ályktað. Hér er bara verið að taka upp helstu þætti sem þeir sem sömdu þetta frumvarp telja að eigi að skoða sérstaklega. Ég man ekki betur en fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafi komið að samningu þessa frumvarps á þinginu þegar um það var fjallað fyrr á þessu ári. Ég geri ráð fyrir að farið hafi verið ítarlega yfir það og menn hafi almennt verið sammála um að draga sérstaklega fram þessi viðfangsefni, þótt 3. gr. frumvarpsins kveði sérstaklega á um að stjórnlagaþing geti ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er í 1. mgr. Það undirstrikar að hér er um heildarendurskoðun á stjórnarskránni að ræða.

Hér eru ýmis ákvæði, t.d. í 5. tölulið, sem mér er sérstaklega hugleikið að stjórnlagaþing fjalli um, það er ákvæðið um kosningar og kjördæmaskipan. Ég tel að reynslan sýni okkur að Alþingi geti raunverulega ekki fjallað um þá þætti sem snúa beint að hagsmunum þeirra sjálfra, sem eru kosningar og kjördæmaskipan. Hér er fjallað um alla helstu þættina eins og hlutverk og stöðu forseta Íslands og dómstólana eins og ég nefndi í framsögu minni að lítið hefði verið fjallað um. Einnig er fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör. Að sjálfsögðu getur þingið tekið það upp og það er alveg sjálfsagt að gera það, enda erum við að fjalla hér um þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki er bindandi eins og við ræddum fyrr í dag. Það er ákaflega mikilvægt að stjórnlagaþing taki þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir vegna þess að ég tel að bæði stjórnlagaþing og þjóðaratkvæðagreiðsla eigi (Forseti hringir.) að vera í stjórnarskránni.