138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:53]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrirspurnina því að þetta er það mál sem hefur vafist mest fyrir okkur í Hreyfingunni og þeim sem við höfum verið að tala við hvað varðar stjórnlagaþing, það er með hvaða hætti á að velja á það. Það er einfaldlega alls ekkert einfalt mál. Sú tillaga sem við lögðum fram hér, um slembiúrtak úr þjóðskrá, er einfaldlega ein af fjölmörgum sem komu upp. Við ákváðum að hafa hana efst á blaði því að hún var kannski óumdeildust af öllu. Ég hef í sjálfu sér ekki vantrú á íþróttastjörnum eða öðrum slíkum sem ég taldi hér upp, fyrrverandi stjórnmálamönnum, heldur held ég einfaldlega að sú hætta gæti verið til staðar að þetta kjör yrði að einhverju leyti, ég veit ekki hvað má kalla það, óvirðulegt eða fáránlegt, ef kosningabaráttan um þetta kjör færi úr böndunum.

Ég er alveg sammála því sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði, það er mjög umhugsunarvert hvort ekki þurfi að setja fyrst einhvern ramma eða einhverjar reglur um það með hvaða hætti slíkt kjör gæti farið fram, þó að ekki megi setja takmarkanir hvað varðar þá sem bjóða sig fram á það, nema eins og gert er með þingmenn af því að þeir eiga að fjalla um málið síðar meir.

Þetta er einfaldlega atriði sem er mjög vandmeðfarið. Þess vegna tæpti ég helst á því og það er helsta umhugsunarefni okkar í þessu máli að þetta er alls ekki auðleyst. Ég fagna því að við getum átt samræður um það því að í slíkri samræðu finnum við oft sameiginlegar lausnir eða lausnir sem okkur hafa kannski ekki dottið í hug fyrr. Ég kalla bara eftir viðbótarlausn við þennan þátt frumvarpsins ef hægt er að komast svo að orði.