138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég velti því fyrir mér hvernig hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hugsar þetta. Það er ljóst að ef fela á stjórnlagaþingi stjórnskipunarlegt vald, vald til að ákveða nýja stjórnarskrá, þá þarf að breyta stjórnarskrá og það verður ekki gert nema það sé samþykkt á tveimur þingum ef alþingiskosningar fara á milli. Ef hv. þingmaður er ekki að tala um að málið bíði um nokkra hríð, þ.e. við getum auðvitað rætt það hér og farið vandlega yfir málin á vettvangi þingsins og sjálfsagt og gott að gera það, en stjórnlagaþing mundi þá ekki taka til starfa fyrr en að loknum næstu þingkosningum og þá eru hugsanlega þrjú ár í það, nema ef til þess kemur að kosið yrði fyrr, sem ég held að enginn hafi áform um akkúrat núna.