138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að hafi verið einhver misskilningur milli okkar hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur sé hann leystur en ég skil orð hennar þannig að hún telji að málið sé þess eðlis að rétt sé að það fái góða umræðu á vettvangi þingsins og það sé betra að vanda til verka en að flýta sér. Ég skil orð hennar með þeim hætti. Það var reyndar athyglisvert að mér fannst hæstv. forsætisráðherra gefa það til kynna í ræðu sinni að málið væri ekki sama forgangsmálið eins og kannski mátti skilja á fyrri stigum. Ég hef ekki náð að fara betur yfir ummæli hæstv. forsætisráðherra en ég gat ekki skilið hana öðruvísi en svo að hún væri að opna möguleikana á því að málið frestaðist í raun og veru um hríð þannig að ekki yrði kosið til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Hafi hv. þingmenn ekki skilið orð hæstv. forsætisráðherra með þeim hætti bið ég þá endilega að koma því að síðar í umræðunni.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi að frumvarpið sem við erum að fjalla um er verulega ólíkt því sem var á þingi síðasta vor. Ég ætla að rifja örlítið upp hvernig það mál bar að og hvernig því lyktaði en það var auðvitað um það að ræða að það var liður í tillögum til stjórnarskrárbreytinga sem þáverandi minnihlutastjórn bar fram á þingi og gerði tilraun til að koma í gegn á örfáum vikum. Að mati okkar sjálfstæðismanna var það mikið óráð á sínum tíma að reyna að koma í gegn umfangsmiklum stjórnarskrárbreytingum án þess að þær hefðu fengið viðhlítandi meðferð, hvorki í aðdraganda frumvarpsgerðar né þegar málið kom inn í þingið. Þess vegna var ekkert launungarmál að við lögðumst mjög hart gegn þessu. Varðandi stjórnlagaþingið sérstaklega þá höfðum við auðvitað efasemdir um að við ættum að fara í þá grundvallarbreytingu á íslenskri stjórnskipun sem fólst í því að færa stjórnskipunarvald frá Alþingi og það er auðvitað grundvallarspurningin í þessu sambandi. Teljum við að Alþingi eigi að vera vettvangur til að ákveða landinu stjórnarskrá, auðvitað með sérstökum og vandaðri hætti heldur en á við um almenna lagasetningu, eða teljum við að það sé einhver önnur stofnun sem er betur til þess fallin að fjalla um stjórnskipun landsins en Alþingi? Um það eru einfaldlega skiptar skoðanir og í raun og veru held ég að hvorugur aðila geti sannað mál sitt á einn eða annan hátt í því sambandi. Þetta er spurning um mismunandi viðhorf. Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga eigi að vera sá vettvangur þar sem vélað er um stjórnskipun landsins. Ég hef hins vegar lýst þeirri skoðun minni, og gerði það ítrekað síðasta vetur og reyndar áður, að það væri eðlilegt að þegar Alþingi hefur lokið umfjöllun sinni um stjórnarskárbreytingar fari slíkar breytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig hafi þjóðin beina aðkomu að ákvörðun stjórnarskrár og stjórnarskrárbreytingar.

Ég byggi sjónarmið mín í þessu efni á því að Alþingi er vettvangur þjóðkjörinna fulltrúa. Þeir eru þjóðkjörnir með ákveðnum hætti, þeir eru þar kjörnir á pólitískum forsendum og á grundvelli pólitískrar stefnu, og hvaða mál eru pólitískari í eðli sínu en einmitt grundvallarreglur þjóðfélagsins? Ég tel þess vegna að það væri verið að færa frá Alþingi líklegasta mikilvægasta hlutverk þess ef sú breyting yrði að stjórnarskrárvald yrði flutt frá Alþingi til sérstaks stjórnlagaþings. Þess vegna er ég í grundvallaratriðum á móti breytingum að þessu leyti, á móti stjórnlagaþingi. Ég tel að við getum gert verulegar umbætur í stjórnskipunarmálum, breytingar á stjórnarskrá án þess að fara þessa leið og ég tel að hægt sé að auka aðkomu almennings og auka lýðræði, af því að það er vinsælt í umræðum í dag, án þess að fara þessa leið. Það er mín grundvallarafstaða til málsins.

Ég ætla ekki að fara djúpt í einstök útfærsluatriði í þessari ræðu en ég get þó ekki látið hjá líða að nefna fjárhagsþáttinn því að eins og hæstv. forsætisráðherra gerði grein fyrir í ræðu sinni áðan þá áætlar fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins að kostnaður við stjórnlagaþing verði á bilinu, ég held að ég fari rétt með tölurnar, 312–440 millj. kr. Mér sýnist hins vegar að þar sé ýmislegt áætlað mjög naumt, að gert sé ráð fyrir að það sé byggt á bjartsýnustu spám út frá sjónarmiði ríkiskassans og því hygg ég að kostnaðurinn verði töluvert meiri. Þetta eru auðvitað allt aðrar tölur og miklu lægri en ræddar voru síðasta vetur þegar sami forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um stjórnlagaþing sem átti að kosta hátt í 2 milljarða kr. og þótti ýmsum að það væri vel í lagt, svo ekki sé meira sagt. En engu að síður hygg ég að 300–400 millj. kr. eða 400–500 millj. kr. eins og ég mundi ætla að væri nær lagi — a.m.k. mun ég kalla eftir þeim upplýsingum í allsherjarnefnd sem nauðsynlegar eru til að gera raunhæfara mat í þeim efnum — ég hygg að þeim peningum, og þar komum við aftur að spurningunni um hvernig menn vilja forgangsraða í útgjöldum ríkisins, væri hægt að verja með betri hætti en að setja í þetta stjórnlagaþing.

Við höfum fyrr í dag verið að ræða dómstólana í landinu. Hæstv. dómsmálaráðherra kynnti hugmynd sína um að auka fjárveitingu til dómstóla um 105 millj. kr. og hæstv. dómsmálaráðherra sá ekki aðra leið til að fjármagna þessa nauðsynlegu viðbót við fjárveitingar til dómstólanna í landinu, Hæstaréttar og héraðsdómstólanna, en með því að hækka dómstólagjöld, þ.e. láta þá sem þurfa að leita til dómstóla greiða hærri gjöld fyrir þá þjónustu sem þeir fá hjá dómstólunum. Þetta veldur mér nokkurri umhugsun. Það veldur mér umhugsun að hæstv. dómsmálaráðherra skuli hafa talið þetta nauðsynlegt en það er væntanlega vegna þess að ramminn er þröngt skorinn í fjárlögunum. Það verður að leggja hærri gjöld á fólk sem þarf að leita til dómstóla, hugsanlega fátækt fólk sem þarf að leita réttar síns fyrir dómstólum. Það þarf að hækka gjöldin á þeim vegna þess að það er ekki hægt að fá peninga í dómstóla landsins með öðrum hætti. Lögreglan í landinu þarf að sæta sparnaðarkröfu upp á rúmlega 8% þegar tekið er tillit til allra þátta í fjárlagafrumvarpinu. Fangelsin í landinu verða að taka á sig hagræðingarkröfu, bara svo nokkur dæmi séu nefnd. Á slíkum tímum, þegar við verðum að skera svona naumt við nögl þegar kemur að grundvallarstofnunum eins og dómstólum, lögreglu og fangelsum, þegar við erum að skera niður, þegar fangelsin eru yfirfull en fangelsismálastofnun þarf að skera niður um 10%, þegar dómstólarnir eru með yfirdrifið af verkefnum en verða að skera niður engu að síður, þegar lögreglan sér ekki út úr augum vegna verkefna og það þarf að skera þar niður um 8,2% eða 8,3% þá höfum við efni á stjórnlagaþingi, efni á að setja á fót stofnun þar sem menn ræða um stjórnarskrármál fram og til baka án þess að hafa síðan vald til að breyta stjórnarskránni. Mér finnst þetta skjóta nokkuð skökku við.

Svo ég snúi aftur að upphafi ræðu minnar þá heyrði ég ekki betur en hæstv. forsætisráðherra tæki þannig til orða að málið væri ekki í sama forgangi og áður. Ég tel því sjálfsagt að þetta mál gangi til allsherjarnefndar og fái þar einhverja umræðu. En eins og ég sagði í umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslur fyrr í dag þá er það mín skoðun að við sem sitjum á þingi, þeir 63 einstaklingar sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna fyrir hönd þjóðarinnar, eigum að einbeita okkur a.m.k. næstu vikur að málum sem varða efnahagsuppbyggingu. Að málum sem varða það að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað sem verða til þess að hægt sé að samþykkja raunhæf fjárlög með nauðsynlegum niðurskurði þar sem það er hægt og hugsanlega aukinni tekjuöflun þar sem það er hægt, þar sem það veldur ekki meiri skaða en óhjákvæmilegt er. Ég held að við ættum að einhenda okkur í þessi verkefni núna á næstu vikum. Hins vegar getum við tekið áhugaverða umræðu um stjórnskipunarmál, þá þætti sem varða hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá og aðferðum við að ræða stjórnarskrá eins og þetta frumvarp er í rauninni, þetta er frumvarp um ákveðna aðferðafræði til að ræða stjórnarskrána, ekki til að komast að niðurstöðu heldur til að ræða hana, við getum tekið þá umræðu þegar aðeins hægist um á sviði efnahagsmála. Þegar einstaklingur, hópur, fyrirtæki eða t.d. hópur manna hér á þingi stendur frammi fyrir einhverju brýnu verkefni og brýnum verkefnum á ýmsum sviðum þá komast menn ekki hjá því að forgangsraða. Og í mínum huga á forgangsröðunin að vera sú að ná okkur upp úr efnahagslægðinni, setja alla okkar orku í það verkefni og þegar við höfum náð okkur upp úr þeim skurði sem við vissulega erum í í efnahagsmálunum þá getum við rætt þessi mál og reynt að koma okkur saman því það er mikilvægt að við getum komið okkur saman um lausnir í sambandi við stjórnskipunarmálin því það er nauðsynlegt að um þær ríki sem breiðust sátt þannig að stjórnarskrárbreytingar standist til lengri tíma en séu ekki ákveðnar eftir því hvernig vindar blása í stjórnmálunum frá degi til dags eða viku til viku.