138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er eitt atriði sem ég vildi gera athugasemd við í máli hv. þingmanns, það sem kallað var vanmáttur stjórnmálamanna til að breyta stjórnarskránni. Staðreyndin er sú að stjórnarskránni hefur verið breytt alloft á síðustu árum. Það er rétt að ekki hefur tekist að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar en stjórnarskrárbreytingar hafa verið alltíðar á undanförnum áratugum og staðreyndin er sú að stjórnarskrár eru í öllum löndum eru frekar stöðug löggjöf sem tekur miklu færri og miklu sjaldnar breytingum en löggjöf að öðru leyti.

Það hefur verið nefnt og er oft nefnt sem ljóður á íslensku stjórnarskránni að hún sé byggð á fyrirmynd konungsstjórnarskrárinnar frá 1874. Menn mega ekki gleyma því að sú stjórnarskrá var byggð á dönsku grunnlögunum frá 1848 sem sóttu fyrirmynd til margra ríkja Evrópu á fyrri hluta 19. aldar þegar mikil stjórnarskrárvakning varð víða um Evrópu. Ég tel það ekki sjálfstæða röksemd fyrir breytingum á stjórnarskrá að uppruni núverandi stjórnarskrár sé með þessum hætti. Með þessu er ég ekki að segja að ekki sé ástæða til að fara í margvíslegar breytingar á stjórnarskrá. Ég hef tekið þátt í stjórnarskrárstarfi sem hefur miðað að því marki en það er þetta tvennt sem ég vildi nefna, annars vegar að uppruni stjórnarskrárinnar er ekki að mínu mati sjálfstæð röksemd fyrir því að breyta henni og hitt (Forseti hringir.) að stjórnmálamenn á þingi hafa margoft tekið þátt í að breyta stjórnarskránni á umliðnum árum.