138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar ábendingar sem mér var reyndar báðar fullkunnugt um, þar á meðal að stjórnarskránni hefur verið breytt. Ég taldi það upp sjálf að rækileg endurskoðun hefur farið fram á III., IV. og VII. kafla ef ég man rétt. Mér er líka fullkunnugt um að stjórnarskrár taka sjaldnar breytingum en önnur lög enda liggur það í hlutarins eðli. Ég bendi hins vegar á að stjórnarskrárnefndir hafa verið meira og minna starfandi frá 1945 þegar skipuð var 12 manna nefnd til ráðgjafar einhverri eldri nefnd. Þannig getum við farið í gegnum tímann og stjórnmálamönnum hér hefur aldrei tekist að gera þessa heildarendurskoðun á stjórnarskránni sem lagt er til að stjórnlagaþing geri. Það er mín skoðun að það sýni vanmátt stjórnmálamanna til að takast á við þetta verkefni, þeir hafa alltaf gefist upp, og þess vegna stend ég enn við að kalla þetta vanmátt.