138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í orðaskak um það hvað stjórnmálamaður þýðir. Ég get verið alveg sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni um að þeir sem hafa áhuga á stjórnskipun og mundu bjóða sig fram til að sitja á stjórnlagaþingi gætu verið stjórnmálamenn. Ég leyfi mér í þessari ræðu minni að nota hugtakið eins og við notum það oftast í daglegu tali. Mér hefur oft fundist þægilegt að nefna hlutina þeim nöfnum sem fólk notar yfirleitt um þá en mun náttúrlega taka til íhugunar hvort rétt sé að skipta mönnum í sérstaka hópa eftir því hverjir eru stjórnmálamenn og hverjir ekki.

Við hv. þingmaður erum sammála um að það beri að vinna vel að málinu. Ég er hins vegar á því að það að vinna vel að málum þýði ekki alltaf að það þurfi að taka mánuði og ár. Það er hægt að vinna vel og gera það á ekki mjög löngum tíma. Það er kannski þar sem okkur greinir helst á.