138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

ummæli Mats Josefssons.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er hreinlega ósammála Mats Josefsson um að endurreisn bankanna hafi gengið eitthvað löturhægt fyrir sig. Það hefur í flestum eða öllum tilvikum verið farið að ráðum Mats Josefssons og ég held að hv. þingmaður hefði líka átt að fara yfir hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fulltrúi hans, Mark Flanagan, hefur sagt um endurreisn bankanna. Ég held að það sé kraftaverk að hafa getað farið í endurreisn bankanna á svo stuttum tíma sem raun ber vitni. Flanagan segir að það sé mikið afrek að tekist hafi að endurfjármagna helstu banka landsins á rúmu ári, að mati hans sem er yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi. Flanagan segir líka, með leyfi forseta:

„„Það sem gerðist á Íslandi er í raun án fordæma,“ sagði Flanagan spurður um stöðu landsins í samanburði við önnur verkefni sem hann hefur reynslu af víða um heim.“

Ég held að þetta sé miklu nær lagi en það sem Mats Josefsson segir.

Varðandi sparisjóðina hefur það gengið hægar fyrir sig en vonir stóðu til, en það er unnið af fullum krafti að því að fá niðurstöðu í sparisjóðina og ég á von á að því að á allra næstu dögum eða vikum sjáum við til lands í því.

Niðurstaða mín er sú að hann hafi ekki rétt fyrir sér í þessu máli og ég held að það sé miklu nær sanni það sem Flanagan, sem er þó yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir um endurreisn bankanna.