138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

ummæli Mats Josefssons.

[10:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það kemur á óvart að heyra þessa gagnrýni frá hæstv. forsætisráðherra á hendur ráðgjafa sínum, Mats Josefsson. Það eru einhver sinnaskipti vegna þess að þessi maður var í hávegum hafður á stjórnarheimilinu fyrir nokkrum vikum, en þegar menn koma með efnislega gagnrýni á ríkisstjórnina breytist tónninn gagnvart þeim ágæta manni.

Þessi ráðgjafi hafði uppi þau orð, sem eru örugglega viðkvæm fyrir hæstv. forsætisráðherra, þegar hann nefndi að hér væri um lélega verkstjórn að ræða. Það þurfti einmitt að innleiða nýja verkstjórn á sínum tíma þegar ný ríkisstjórn var mynduð undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann gagnrýndi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, (Gripið fram í.) sagði að það ætti að byrja á því að endurreisa bankakerfið til að endurreisa atvinnulífið, heimilin í landinu. Þetta er ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar hér. Við hefðum getað staðið mun betur að málum, farið hraðar í hlutina, flýtt endurreisninni og aukið þannig hagvöxt í íslensku samfélagi, fjölgað störfum og þá væri kreppan kannski ekki eins mikil (Forseti hringir.) og raun ber vitni. En það er greinilegt að hæstv. forsætisráðherra ber ekki lengur mikið traust til og er algerlega ósammála sínum nánasta ráðgjafa (Forseti hringir.) þegar kemur að endurreisn bankanna.