138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

fjárlagagerð.

[10:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Nú er sá tími árs sem öll hin breiðu spjótin, stór og smá, beinast að fjárlaganefnd við fjárlagagerð næsta árs. Á slíkum tíma upplifa fjárlaganefndarmenn ýmis tiltæki. Það furðulegasta sem ég hef upplifað á mínum stutta þingferli er það þegar uppstoppað ljón kom í heimsókn og bað um styrk. Ég er ekki að segja að slíkt erindi hafi rekið á fjörur fjárlaganefndar nú en engu að síður vekur það nokkra furðu að fá inn erindi frá einu af ráðuneytum ríkisstjórnarinnar þar sem óskað er eftir liðsinni fjárlaganefndar til að gera breytingar á frumvarpi til fjárlaga sem ríkisstjórnin sjálf hefur staðið að og samið.

Það erindi barst frá iðnaðarráðuneyti til nefndarinnar þar sem því er lýst yfir að í meðförum fjármálaráðuneytisins hafi í fjárlagatillögum ekki verið fallist á allar tillögur iðnaðarráðuneytisins og nefndin beðin að beita sér fyrir því að taka þetta upp við 2. umr. Það er grundvallaratriði við þetta mikla verk að það sé ákveðin regla og festa á hlutum, ekki síst þegar potað er í alls staðar, og maður ætlast til þess að ríkisstjórnin standi saman og haldi fast við það frumvarp sem hún leggur fram. Það mundi einfalda fjárlaganefnd mikið þá vinnu sem fram undan er ef það yrði upplýst hvort við ættum von á því að fá sams konar erindi frá fleiri ráðuneytum eða þá að ef til væri listi yfir þær tillögur sem fjármálaráðuneytið hefði ekki fallist á yrði hann einfaldlega lagður fram í fjárlaganefnd. Spurning mín og ósk til fjármálaráðherra er vinsamleg tilmæli, í ljósi umræðunnar um skattamál þar sem ég var sakaður um lýðskrum en fór fram af mikilli hógværð, (Forseti hringir.) um að við vöndum okkur og stöndum saman um það verklag að vanda okkur við fjárlagagerð næsta árs.