138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

krafa innlánstryggingarsjóðs.

[10:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrir nákvæmlega viku spurði ég hæstv. forsætisráðherra um efnahagslegar afleiðingar þess að krafa innlánstryggingarsjóðs á hendur Landsbankanum hefur verið fryst í krónutölu miðað við 22. apríl sl. samkvæmt lögum frá hæstv. ríkisstjórn. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra, og ég vitna í það orðrétt:

„Það er einmitt þetta sem ég hef verið að láta skoða undanfarna daga, hvaða áhrif þetta getur haft og meta það, eins og hv. þingmaður nefndi. Ég vona að ég fái það innan tíðar og mun þá koma því á framfæri við hv. þingmann.“

Nú er það þannig, frú forseti, að það er ekki mitt einkamál hvernig þjóðinni reiðir af með Icesave-skuldbindingar hangandi yfir sér, annars vegar lán innlánstryggingarsjóðs í evrum og pundum með gífurlega háum Svavars-vöxtum, 5,55%, og hins vegar eign sem er föst í krónutölu. Það er ekki mitt einkamál og í dag ætlar hv. efnahags- og skattanefnd sem hefur fengið þetta mál til umfjöllunar frá hv. fjárlaganefnd að afgreiða málið út án þess að hafa fengið niðurstöðu á þessari skoðun hæstv. forsætisráðherra í hendur, hvað þá rætt hana.

Frú forseti. Ég verð að gagnrýna það mjög að hv. efnahags- og skattanefnd ætlar að lítilsvirða hæstv. forsætisráðherra með þeim hætti að taka ekki til skoðunar það sem hæstv. forsætisráðherra er að láta skoða þessa dagana. Ég bendi á að bara vextirnir af Icesave eru jafnmiklir eða meiri en allir þeir skattar sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja á landslýð, fyrirtæki og einstaklinga.