138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað ein leið að segja við núlifandi kynslóð og þá sem er að ganga í gegnum þetta hrun og þessa erfiðleika, og í raun og veru þar með þá kynslóð sem ber ábyrgð á því: Við skulum bara leysa þetta á sársaukalausan hátt fyrir okkur, við skulum ekki taka á okkur neinar byrðar, tökum bara risastór lán hjá kynslóðum framtíðarinnar. Tökum þetta bara út á lífskjörum lífeyrisþega og tekjum ríkis og sveitarfélaga eftir 10, 20, 30 ár í gegnum lífeyrissjóðakerfið. Það er leið Sjálfstæðisflokksins. Hún er ekki mjög ábyrg.

Það held ég að væri eitt það allra lakasta sem menn gerðu, að horfast ekki í augu við það að auðvitað verðum við að takast á við þetta nú. Undan því verður ekkert vikist. Ég þakka fyrir þessa umræðu, það er ágætt að taka hana, aðallega ef menn halda nú ró sinni í henni og ræða þetta yfirvegað. Mér fannst ansi dökkt yfir hv. þingmanni því að hann fór hér í gegnum málin og komst alltaf að þeirri niðurstöðu að þetta væri allt ómögulegt og það hefði ekkert upp á sig að leita leiða til að hlífa tekjulægra fólki við skattahækkunum því að það færi beint út á bensínsölu, kannski í N1, og keypti þar bensín (Gripið fram í: Æ, æ, æ.) og borgaði fyrir það með hærra bensínverði. [Háreysti í þingsal.]

Eigum við þá ekkert að reyna þetta? Eigum við þá að gefast upp? Ég held að menn eigi að horfast í augu við það hvert viðfangsefnið er. Út af fyrir sig dró hv. þingmaður að sumu leyti upp ágæta mynd af því mikla tjóni sem þjóðfélagið hefur orðið fyrir. Það birtist t.d. með mjög skýrum hætti í stærstu kennitölunum í ríkisbúskapnum, það birtist í þeirri staðreynd að tapið í Seðlabankanum er af stærðargráðunni 300 milljarðar kr., og hallinn á ríkissjóði, uppsafnaður á árunum 2008, 2009 og 2010, stefnir í um 500 milljarða. 800 milljarðar samtals strax í viðbótarskuldir ríkissjóðs bara af þessum tveimur ástæðum. Þær taka nú dálítið í, það kostar sitt í vaxtagreiðslum árlega að standa undir þessum skuldum.

Halli af þessari stærðargráðu gengur ekki upp, það væri algerlega óábyrgt annað en að takast á við það af mikilli einbeitni að ná honum umtalsvert niður, og þeim mun stærri skref sem við tökum framarlega í ferlinu í þeim efnum, þeim mun betra. Þeim mun framhlaðnari sem aðgerðir eru til að draga úr þessum hallarekstri og minnka uppsöfnun vaxtakostnaðar vegna aukinna skulda ríkissjóðs, þeim mun betra. Þetta er mjög einföld stærðfræði og þetta er verkefnið. Menn verða þá að leggja á borðið einhverjar aðrar tillögur en þær sem hér hafa verið lagðar upp. Það kemur ekkert á óvart í þeim efnum að við ætlum okkur blandaða leið sparnaðar og ýtrasta aðhalds og niðurskurðar á aðra hlið og viðbótartekjuöflunar á hina þannig að þetta mætist úr báðum áttum og hallinn minnki. Það er eina raunhæfa og færa leiðin. Menn mega kalla hana brjálæði ef þeir vilja mín vegna en það mun ekki breyta þeirri staðreynd að þetta er eina færa leiðin. Það er nákvæmlega sama hvaða ábyrg ríkisstjórn sæti í landinu, hvaða pólitík hún hefði fram að færa, hún yrði að fara þessa leið. Það er bara blekking að það sé hægt að gera þetta einhvern veginn öðruvísi.

Við eigum að sjálfsögðu að taka til skoðunar allar hugmyndir og það höfum við gert, eins og t.d. þær hvort séreignarsparnaðurinn, sem gegnir talsvert öðru máli um en almenna bundna skyldusparnaðinn, geti þarna komið að liði. Það erum við að gera, við opnuðum fyrir útgreiðslur úr honum auk þess sem því var breytt að fólk getur núna tekið alla upphæðina út í einu lagi þegar það verður sextugt. Og það kemur á daginn að þetta eru menn að nýta sér í verulegum mæli með mjög notalegum tekjuauka fyrir ríki og sveitarfélög. Hvað segir þetta okkur líka? Það segir okkur um verðmætin sem við eigum í lífeyrissjóðakerfinu uppsöfnuðu og skatttekjur ríkis og sveitarfélaga sem koma þegar greitt er út, full staðgreiðsla á allar inngreiðslurnar plús ávöxtunina í kerfinu.

Þegar við horfum á skuldir ríkis og sveitarfélaga í dag og þegar við horfum á vænt útgjöld í almannatryggingakerfinu er stóra ljósið í myrkrinu lífeyrissjóðirnir og væntar tekjur ríkis og sveitarfélaga í gegnum vaxandi uppsöfnun og vaxandi útgreiðslur á komandi árum sem gera hvort tveggja í senn, skila ríki og sveitarfélögum vaxandi tekjum og draga úr útgjöldum í almannatryggingakerfinu. Menn skulu því hugsa sig mjög vel um áður en þeir fara að taka einhver ódýr þægindalán inn í framtíðina til að komast hjá sársaukanum í núinu. (Gripið fram í.)

Ég get glatt hv. þingmann með því, af því að hann talaði um hallann á þessu ári, að sennilega stefnir nú í, og þær upplýsingar munu koma hér fram þegar fjáraukalagafrumvarp kemur til 2. umr. og breytingartillögur þar um frá fjárlaganefnd, að horfur hafa nú heldur batnað í þeim efnum, að halli ríkissjóðs á árinu 2009 verði minni en fjárlagafrumvarpið í september gerði ráð fyrir. Það er aðallega af tveim ástæðum, það dregur nokkuð úr útgjaldaþörf, sérstaklega er það vaxtakostnaður ríkisins sem mun verða lægri á árinu af því að það hefur gengið vel í endurreisn bankakerfisins og ríkið mun sleppa frá því með mun minni kostnað og fjárbindingu en í stefndi svo numið getur a.m.k. 10 og jafnvel allt að 17 milljarða lægri vaxtakostnaði ríkisins strax á þessu ári. (Gripið fram í.) Í öðru lagi eru atvinnuhorfur heldur betri og væntanlega verður hægt að lækka eitthvað fjárheimildir Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu ári (SDG: Af því að fólkið er farið?) vegna betri horfa. Það er gaman að ræða við þessa bjartsýnu þingmenn sem flýta sér að kalla fram í eitthvað neikvætt þegar maður er að reyna að koma með þó jákvæðar fréttir af því að ástandið sé heldur að batna. (SDG: Blekkja.) Á ég þá eftir það — ég er ekki að blekkja hér, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. (SDG: Allan tímann.) Vertu ekki að þessu, það nær ekki máli að ræða við menn sem mæta því umsvifalaust þegar farið er með staðreyndir, sem ég mun leggja á borðið hér og fjárlaganefnd í breytingartillögum sínum innan fárra daga, með tali um blekkingar í þeim efnum. Þolir hv. þingmaður ekki að það komi góðar fréttir, er það svona voðalega vont? Hvernig ætlar hann þá að bregðast við þegar ég segi honum það núna að tekjurnar eru heldur að styrkjast á nýjan leik? Er það ekki jákvætt? Hvað segir það okkur að virðisaukaskattur stefnir núna á nýjan leik í að gefa heldur meiri tekjur? Það þýðir að það eru aðeins meiri umsvif úti í samfélaginu en við reiknuðum með í ágúst og september. Er það ekki gott? (Gripið fram í: Jú.) Vill ekki hv. þm. Sigmundur Davíð gleðjast einu sinni? Hvernig væri nú að brjóta í blað, já, og brosa (Gripið fram í.) þegar einhverjar góðar fréttir koma?

Það er þannig, góðir þingmenn, virðulegur forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn setti á árunum 1995–2005 tvö heimsmet, heimsmet í aukningu skattbyrði og heimsmet í aukningu erlendra skulda. (Gripið fram í.) Þegar tölur OECD eru skoðaðar er þetta svona. Af hverju jókst skattbyrðin svona sem hlutfall af landsframleiðslu á valdatíma Sjálfstæðisflokksins, úr 30% um 1990 í 42% 2006? Vegna þess að persónufrádrátturinn lækkaði á verðlagi ársins 2007 úr um 500.000 kr. í upphafi tímans niður í 370.000 árið 2006. Skattbyrðin fluttist niður á lægri laun og þannig fór nú það.

Okkar verkefni núna er tvíþætt, að reisa landið úr rústum efnahagshrunsins (Gripið fram í: Með því að skuldsetja …) og endurreisa hérna félagslega réttlátt og (Forseti hringir.) sanngjarnt skattkerfi sem getur með sómasamlegum hætti staðið undir samneyslunni þrátt fyrir erfiðar aðstæður. (Gripið fram í: Hverjar eru skattatillögur ríkisstjórnarinnar?) (Gripið fram í.)