138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að hrósa forseta fyrir að leyfa þessa umræðu hér því að þetta virðist vera einhver viðkvæmasta umræða sem fram hafur farið í þingsal lengi. Hér má ekki nefna skatta án þess að fá á sig upphrópanir um lýðskrum. Það er kannski skiljanlegt að þetta sé viðkvæm umræða í ríkisstjórninni því að hún virðist ráðalaus og ekki vita hvernig hún ætlar að taka á vandanum, allra síst er varðar skattlagningu.

Það sem við höfum þó heyrt af hugmyndum stjórnarinnar, það sem unnið er út frá og mér heyrist hæstv. fjármálaráðherra staðfesta hér, eru skelfileg tíðindi vegna þess að staða landsins hefur fram að þessu verið tiltölulega sterk varðandi flestalla hluti — nema skuldsetningu. Innviðir íslensks samfélags hafa verið mjög sterkir, framleiðslugetan og þar af leiðandi getan til að vinna sig út úr kreppunni. En með aðgerðum sínum er ríkisstjórnin jafnt og þétt að eyðileggja þessa innviði og ráðast á sama tíma gegn skuldavandanum með því að auka skuldir ríkisins gífurlega svoleiðis að þessi ríkisstjórn er aftur og aftur að gera allt öfugt við það sem hún ætti að gera í því ástandi sem við erum í nú.

Það er ekki hugsað um verðmætasköpun, það er ekki hugsað um það hvernig við getum framleitt meira, flutt meira út og unnið okkur þannig út úr vandanum, það er eingöngu hugsað um það að hækka álögurnar og auka skuldirnar. Það er ekki hægt að vinna sig út úr kreppu með því að hækka skatta. Það hefur svo margoft verið reynt og alltaf komið á daginn hið augljósa, það er ekki hægt vegna þess að skattar skapa engin verðmæti. Þetta hafa vinstri menn aldrei skilið. Skattar framleiða ekki verðmæti þrátt fyrir að helsti efnahagsráðgjafi hæstv. fjármálaráðherra hafi sett fram hugmyndir sem ganga út á að skattleggja sig út úr kreppu og væru byltingarkenndar nema vegna þess að þær hafa verið reyndar áður og gefið alveg skelfilega raun.

Það eru reyndar ekki bara sósíalistar sem hafa reynt slíkar aðferðir. Í heimskreppunni miklu í Bandaríkjunum voru repúblikanar búnir að gefast upp á því að reyna að skera niður til að ná sér upp úr kreppunni og þá, 1932, voru skattar hækkaðir. Það varð til þess að kreppan varð miklu verri en nokkru sinni fyrr og lengdist til mikilla muna þangað til loksins að demókratar tóku við, sneru nálguninni við og fóru að framleiða, skapa verðmæti. Það skapaði ekki gríðarlegar tekjur fyrir ríkið strax en mjög fljótlega og lengi, lengi, lengi eftir það og byggði upp þau öflugu Bandaríki sem enn standa.

Ef menn huga að hinni hliðinni, verðmætasköpuninni fyrst og fremst, er staða Íslands til þess að ná sér út úr vandanum sterk. En að ætla að vinna sig út úr skuldakreppu með skattlagningu og með því að auka enn á skuldirnar er hræðilegt. Þjóðin áttar sig á því og fleiri og fleiri fara úr landi, enda eru þær leiðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt, og er nú að kynna, þess eðlis að þær bitna verst á þeim sem eru líklegastir til að yfirgefa landið, því fólki sem getur fengið vinnu hvar sem er. Hvernig verður með skatttekjur ríkisins þegar það fólk fer? Hvernig verður staðan þegar læknar, verkfræðingar og aðrir sem geta fengið vinnu hvar sem er, þeir sem hafa skilað hvað mestum skatttekjum, eru farnir? Hvernig er þá möguleiki landsins á að vinna sig út úr vandanum með verðmætasköpun?

Þessi ríkisstjórn verður að snúa nálgun sinni við, hún er að gera allt öfugt og það á langversta hugsanlega tíma, á sama tíma og álögur á fólk aukast. Launin eru að lækka, allt er að hækka í verði og þá á enn að auka á skattana, ekki tekið í mál að koma til móts við fólk með því að leiðrétta hjá því skuldir, en það á að hækka á það skattana þegar ekkert er eftir til að borga þá. Þegar sú er raunin fær ríkið ekki mikið út úr slíkum aðgerðum.