138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:31]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum skattamál og hækkun skatta. Það þarf að hækka skatta, segja menn.

Hvers vegna þarf að hækka skatta? Það þarf að greiða skuldir, endar ná ekki saman.

Hverra skuldir er verið að greiða? Það er verið að greiða skuldir m.a. Seðlabankans, skuldir vegna hruninna banka og fjármálafyrirtækja. Ein af þeim fyrirspurnum sem ég hef ítrekað sett fram hér er hvað verið sé að gera innan stjórnkerfisins til að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst aftur með endurskoðun t.d. á starfsháttum Seðlabankans eða starfsháttum Fjármálaeftirlitsins. Þá svarar ráðherra mér því til að ég sé með tilhæfulausar persónulegar árásir á starfsmenn. Það er ekkert verið að gera til að koma í veg fyrir að þetta geti gerst aftur og það er kannski eitt af því dapurlega við þetta.

Hvað varðar skattamálin sjálf þarf nýja hugsun. Það er ekki hægt að leggja hærri skatta á almenning í landinu eins og efnahagsástandið er. Ég er ekki í sjálfu sér fráhverfur því að hér verði skattar að einhverju marki hærri en þeir hafa verið undanfarin ár eða áratug til að koma á meiri jöfnuði í samfélaginu, en tímasetningin á því í dag er ekki heppileg. Þess vegna þarf nýja hugsun, finna þarf nýja skattstofna sem eru breiðir og duga til að brúa gjána í fjármálum ríkisins.

Ég á sjálfur sæti í efnahags- og skattanefnd og hef lagt þar fram tillögur við formann hennar sem að mínu viti hafa einfaldlega verið hunsaðar. Ég hef lagt fram tillögur um gistináttagjald, orkugjald á stóriðju og aflagjald á úthlutaðar aflaheimildir. Þetta eru skattar á þær auðlindir sem almenningur í landinu á en búið er að afhenda einkaaðilum. Þetta eru skattar á þær auðlindir hverra atvinnugreinar stórgræða núna vegna hruns krónunnar. Einhverra hluta vegna er því hafnað að þessir aðilar standi að einhverju leyti undir skattahækkunum. Það má ekki styggja atvinnulífið en á meðan fara fram stórfelldar afskriftir á atvinnulífið í leyni, undir borði og bak við luktar dyr. Þetta er aðför að almenningi í landinu eins og svo margt annað sem gert er þessa dagana. Aðförin er að hluta til í boði hókuspókuslaga félagsmálaráðherra um niðurfellingu skulda heimilanna þar sem skuldir vegna hlutabréfakaupa á afleiðusamninga verða felldar niður. Það vantar stórfelldar stjórnkerfisbreytingar, það vantar nýja hugsun og það vantar siðferði enn þá alveg eins og siðferði hefur vantað í hugsunina undanfarna áratugi.

Það er skammarlegt að verða vitni að þessu. Ég mun gagnrýna þetta harkalega svo fremi sem ástæða verður til og mér sýnist sem það verði nægt tilefni, a.m.k. miðað við þá vegferð sem ríkisstjórnin er í þessa dagana.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur lífeyrissparnaðinn til eigna og nú er verið að þjóðnýta hann af ríkisstjórninni í gegnum séreignarsparnaðinn. Jú, takið út séreignarsparnaðinn svo við getum skattlagt hann svo við getum greitt niður skuldir auðmanna. Þetta heitir þjóðnýting á lífeyrissparnaði og ekkert annað. Lánshæfismat er hrunið þrátt fyrir ESB-umsókn, þrátt fyrir Icesave-samningana og þrátt fyrir afgreiðslu AGS á lánum til Íslands og það sýnir einfaldlega að við erum komin í stöðu sem við munum aldrei komast úr með sama áframhaldi.