138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er gjarnan um það rætt héðan úr þessum ræðustól að nauðsynlegt sé að taka erfiðar ákvarðanir. Það má um margt rétt vera. Ég held þó að mikilvægast sé, frú forseti, að taka réttar ákvarðanir. Stundum eru reyndar réttar ákvarðanir erfiðar. Það hendir oft, en það er ekki allt unnið með því að taka bara erfiðar ákvarðanir.

Einn hv. þingmaður sem hér talaði benti einmitt réttilega á að leið Bandaríkjamanna frá árinu 1929 leiddi til þess að kreppan þar í landi varð margfalt dýpri og erfiðari en þurfti að verða. Þá ætluðu menn sér að taka erfiðar ákvarðanir með því að hækka vexti í kjölfar bankahrunsins og hruns hlutabréfamarkaðar og draga þannig úr umsvifum í hagkerfinu. Og nú stöndum við frammi fyrir því á Íslandi að ríkisstjórnin setur fram og lætur glitta í hugmyndir sínar um skattahækkanir. Það er við þær aðstæður þegar hagkerfi okkar hefur dregist harkalega saman þar sem það liggur fyrir að draga þarf úr útgjöldum ríkisins og þá, við þær aðstæður, segja menn: Það er nauðsynlegt að taka erfiðar ákvarðanir. Og sú erfiða ákvörðun sem á að leysa er sú að hækka skattana við þessar aðstæður.

Því miður verða afleiðingarnar mjög með þeim sama hætti og varð í Bandaríkjunum þegar menn tóku þá ákvörðun að hækka þar vexti í kjölfar hrunsins. Vegna skattahækkananna munu umsvifin í efnahagslífinu dragast saman. Það veldur því að við verðum lengur að koma okkur upp úr kreppunni. Þetta mun valda því að kreppan varir lengur.

Á sama tíma liggja fyrir hugmyndir okkar sjálfstæðismanna um það hvernig hægt er að komast út úr vanda ríkissjóðs án þess að fara þessa skattahækkunarleið ríkisstjórnarinnar. Þær eru raunhæfar og þær eru skynsamlegar og það er rangt sem hefur verið haldið fram, m.a. af hæstv. fjármálaráðherra, að hér sé um að ræða einhverja brellu og að stela peningum af framtíðinni. Við eigum að horfa m.a. á séreignarsjóðina og þær skatttekjur sem ríkið á þar inni. Við horfum til þess að flýta framkvæmdum og flýta fjárfestingum. Við horfum á það að skapa ekki óvissu um sjávarútveginn á Íslandi. Við horfum á það að koma hjólum atvinnulífsins sem fyrst af stað.

Því miður virðast margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar halda að hægt sé að skattleggja sig út úr kreppu. Það er ekki hægt. Það er ekki hægt frekar en þegar barón von Münchhausen reyndi að hífa sjálfan sig upp á hárinu, það er raunverulega útilokað. (Gripið fram í.) Það má vera að hæstv. ráðherra trúi þessari sögu. Það er alvarlegt þegar slíkur trúnaður er lagður sem grundvöllur undir efnahagsstefnu okkar Íslendinga. Það er akkúrat þetta sem við þurfum að forðast, frú forseti, við verðum að leggja upp með því að koma í veg fyrir að samdrátturinn aukist. Við eigum að fara þær leiðir sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram sem snúa að því að auka framleiðsluna og fara færar leiðir vegna þess að við eigum frestaðar skatttekjur í lífeyrissjóðunum. (Forseti hringir.) Þannig getum við unnið okkur út úr þessu en ekki með Münchhausen-aðferðum hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í.)